139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka kennsluna í lögfræði frá íslenskufræðingnum, það er ágætt að honum finnist hann þess bær að vera með lagakennslu hér í pontu, það er ágætt.

Ég sagði að þetta væri vafalaust löglegt en ég hafði það eftir prófessor í lögfræði sem þekkir lögfræði væntanlega betur en ég og þingmaðurinn bæði til samans. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði, sagði að þetta væri löglegt en óheppilegt. Ég margítrekaði að verið væri að ganga á svig við dóm Hæstaréttar, mér þætti þetta vond leið, mér þætti þetta versta leiðin af þeim sem væru í boði.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skipt um skoðun í þessu máli og það er athyglisvert að í öllum andsvörum, og reyndar í heilli ræðu hér áðan, hefur þingmaðurinn óskapast yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn standi einhuga á móti þessari tillögu. Það finnst honum merki um að við séum kúguð til að hafa ákveðna skoðun í þessu máli. En í hina röndina er hann að reyna að pikka í þetta allt saman til þess að finna einhvern meintan ágreining.

Ég skal gleðja hv. þingmann með því að segja honum frá því að innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins ríkir sannarlega einhugur um þetta mál. Okkur þykir þetta vont mál, við erum á móti þessu máli. Spurninguna um hvort þetta er þingtækt eða ekki eftirlæt ég hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ég blandaði mér ekki í þá umræðu á sínum tíma og ætla ekki að gera það hér. En þingmanninum til upplýsingar, og vonandi til mikillar gleði og ánægju, get ég fullyrt að ég ásamt öðrum þingmönnum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins tel þetta vera vont mál.