139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar að hún hefði verið á fundi með framsóknarmönnum hér í borginni og þurft að koma í þingið til að halda ræðu. Hún hafi verið spurð að því, ef ég skildi rétt, hvort og af hverju framsóknarmenn væri horfnir frá því að hafa stjórnlagaþing. Af því tilefni vil ég spyrja hv. þingmann af því að ég veit að framsóknarmenn voru mjög áfram um það að haldið yrði stjórnlagaþing: Lítur hún svo á að þetta klúður geri það að verkum að það stjórnlagaþing sem nú á að gera að stjórnlagaráði til að komast fram hjá dómi Hæstaréttar, hafi svo lítið vægi og svo lítið traust að það sem kemur frá því, verði þetta samþykkt, hafi bara ekkert vægi í huga fólks eða huga Alþingis þannig að Alþingi geti í rauninni breytt því og gert allt sem því dettur í hug við þá framleiðslu? Þetta fólk er í rauninni ráðið af forseta Alþingis, ekki af þjóðinni. Áður átti kjörstjórn að gefa út kjörbréfin en nú er það forseti Alþingis sem gefur út kjörbréfin eða ráðningarsamninginn eða tilskipunina. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er ekki orðið dálítið varasamt gagnvart því ágæta fólki sem var kjörið á stjórnlagaþing að fara þessa leið, að setja alltaf minna og minna vægi á gildi þess við þetta starf sem verður örugglega mjög mikilvægt, ef tillagan verður samþykkt, og mikil vinna? Það er hálfdapurlegt að hugsa til þess að menn skuli hafa valið einmitt þessa leið til að ná þessu fram en það er einmitt sú leið sem ég taldi vera aðra verstu leiðina.