139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það hallar undir lok umræðunnar, fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu. Að sumu leyti hefur umræðan verið upplýsandi en enn er allmörgum spurningum ósvarað. Hugsanlega verður möguleiki á að fjalla um það innan allsherjarnefndar, m.a. atriði sem varða fjármögnun og fjárveitingar og slík atriði sem farið er fremur fáum orðum um í tillögunni sjálfri en athygli hefur verið vakin á í umræðunni og er rétt að verði skoðuð. Ég varpa fram spurningu í því sambandi, ég ætlast ekki til að fá svör við henni í þessari umræðu en vil þó halda henni til haga: Hver tekur ákvörðun um útgjöld eða fjárveitingar, nái tillagan fram að ganga? Verður það forseti Alþingis? Verður það stjórnlagaráðið sjálft, eða hver mun hafa ákvörðunarvald í þeim efnum?

Ég velti líka fyrir mér hvernig starfseminni verði háttað að öðru leyti. Ég hef spurt fleiri en einn og fleiri en tvo stuðningsmenn frumvarpsins um að hvaða leyti stjórnlagaráðið verði frábrugðið stjórnlagaþinginu sem lögin frá því í fyrra gerðu ráð fyrir. Mér hefur heyrst, og bið um að verða leiðréttur ef það er misskilningur hjá mér, að tillöguflytjendur og þeir sem standa með þeim í þessu máli geri ráð fyrir því að stjórnlagaráðið verði með sama sniði og stjórnlagaþingið hefði orðið. Ég endurtek: Ef það er misskilningur hjá mér bið ég um að hann verði leiðréttur.

Ég ítreka einnig spurningu sem ég varpaði fram í umræðunni: Hver er efnislegi munurinn á stjórnlagaráðinu og stjórnlagaþinginu? Það er augljóst að nafninu er breytt. Það heitir ekki lengur stjórnlagaþing heldur stjórnlagaráð og fulltrúarnir sem þar sitja, sömu einstaklingar og kosnir voru á stjórnlagaþing að því er tillagan gerir ráð fyrir, fái skipunarbréf frá forseta Alþingis en ekki kjörbréf frá landskjörstjórn.

Athygli mín var vakin á annarri breytingu, að stað þess að forsætisnefnd Alþingis setti stjórnlagaþinginu starfsreglur væri kominn texti um að stjórnlagaráð setti sér starfsreglur sjálft. Þar með eru upptaldar þær breytingar sem orðið hafa á þeirri samkomu sem málið snýst um.

Ég spyr jafnframt, og ég held að sé lykilspurning í þessu sambandi: Er ekki eingöngu um að ræða minni háttar breytingu, eins litla útlitsbreytingu og hægt er, nafnbreytingu og smávægilega formbreytingu? Er ekki kjarninn í rauninni sá að sú samkoma sem taka á til starfa, nái þingsályktunartillagan fram að ganga, á að vera skipuð sömu einstaklingum og sinna sömu verkefnum í sama starfsumhverfi og stjórnlagaþingið átti að gera? Ef það er misskilningur hjá mér bið ég um að vera leiðréttur.

Það finnst mér skipta höfuðmáli vegna þess að ástæðan fyrir því að ég hef lagst mjög eindregið gegn því að þessi leið verði farin er sú að ég tel að með henni sé verið að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Ef staðan er sú að aðeins verði skipt um nafn og aðila sem gefa á að út skipunarbréf get ég ekki skilið það öðruvísi en svo að verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar því að kosningin sem á að byggja á við val á þessum einstaklingum var úrskurðuð ógild. Hvað getur falist í slíkri ógildingu kosningar ef kosningaúrslitin eiga að gilda? Mér er alveg fyrirmunað að átta mig á því. Misskilji ég (Forseti hringir.) eitthvað í því sambandi ítreka ég að ég bið þá um að vera leiðréttur.