139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get nánast tekið undir hvert orð sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði í ræðu sinni. Það eru skrýtin rök sem borin eru á borð fyrir okkur þingmenn og þjóðina í þessu máli. Sumir kalla þau kennitöluflakk. Það er kannski ágætisútskýring á því sem liggur fyrir. Þjóðin skilur nú eftir hrunið hvað kennitöluflakk er, það er nýr rekstur á nýrri kennitölu og skuldirnar skildar eftir. Í þessu tilfelli er úrskurður Hæstaréttar um ógildingu skilinn eftir en restin tekin yfir á nýtt nafn, nýja kennitölu. Nú heitir það stjórnlagaráð. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Ég hef farið ítarlega yfir málið í dag en mig langar aðeins að vísa í greinargerð á bls. 2 í þingsályktunartillögunni. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með ákvörðun hinn 25. janúar 2011 ógilti Hæstiréttur Íslands kosningu þá til stjórnlagaþings sem fram hafði farið. Sú ákvörðun er bindandi og endanleg.“

Það stendur í tillögunni. Því spyr ég: Hvers vegna er þessi hugmynd þá komin fram undir nýju nafni fyrst flutningsmenn þingsályktunartillögunnar líta svo á að úrskurður Hæstaréttar hafi verið bindandi og endanlegur?

Ég er með spurningu fyrir hv. þm. Birgi Ármannsson. Það var ákveðinn sætishlutur í kosningunum sem var reiknaður 3.167 atkvæði. 11 einstaklingar hlutu þann sætishlut en frambjóðendur sem lentu í sætum 12–25 höfðu reiknaðan sætishlut á bilinu 3.144–1.996 atkvæði. Nú er ljóst að nokkrir af þessum 25 sem kjörnir voru ætla sér ekki að taka sæti í stjórnlagaráði. (Forseti hringir.) Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að niðurstaða ógildu kosninganna fari nú eitthvað að riðlast (Forseti hringir.) þegar það þarf að færa sig neðar á listann í ljósi þess að atkvæði voru flutt 509 sinnum?