139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljós innbyggður galli í þessa leið vegna þess að ef einhver einstaklingur sem er einn af 11 efstu í hópunum hættir við eða þiggur ekki sætið er talningarkerfið komið í uppnám. Kosningakerfið gengur út á það að þeir hljóta fyrsta sætið sem fá flest atkvæði í það og svo koll af kolli. Þeir 11 einstaklingar sem náðu sætishlut skipta máli við röðunina á listunum og atkvæðamagnið þar fyrir neðan. Segjum sem svo að maðurinn sem hlaut flest atkvæði í hinni ógildu kosningu hætti við, þá er öll röðin í uppnámi því að öll talningin miðast við hvaða einstaklingur fékk flest atkvæði í fyrsta sæti og hvernig kjósendur hans nýttu atkvæði sitt fyrir önnur sæti. Af því að báðir flutningsmenn ríkisstjórnarflokkanna að þingsályktunartillögunni sitja í salnum vil ég biðja hv. þingmenn um að íhuga í hvaða fúapytt tillagan verður komin þegar ljóst verður hverjir taka sæti og hverjir ekki.

Þá langar mig að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, vegna þess að hann er ekki hrifinn af þeirri tillögu sem fyrir liggur og mun ekki fylgja henni eða greiða henni atkvæði sitt: Telur hann koma til greina að hann muni styðja (Forseti hringir.) fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þá breytingartillögu (Forseti hringir.) sem ég ætla að gera við þingsályktunartillöguna, að sjö manna (Forseti hringir.) stjórnlaganefnd taki til starfa og skili drögum að frumvarpi til Alþingis?