139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir veit hefur löng venja verið fyrir því að fjárveitingar væru samþykktar eftir á með fjáraukalögum. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir veit líka jafn vel og ég að á það fyrirkomulag hefur verið mjög mikil gagnrýni á undanförnum árum. Það hefur verið sívaxandi krafa, bæði innan þings og utan, um að reynt sé á skýran hátt að afmarka betur fyrir fram útgjöld ríkissjóðs í stað þess að stórar fjárhæðir séu afgreiddar eftir á.

Það er rétt að vísað er með almennum orðum til þess að til séu fjárveitingar á fjárlögum til starfsemi stjórnlagaþings. Nú skilst mér að það sé ætlan flutningsmannanna að þær fjárveitingar gangi til stjórnlagaráðsins. Er þá komið enn eitt atriðið, eins og það hljómar, sem bendir til þess að um sé að ræða sama fyrirbærið, sömu samkomuna og áður, aðeins með breyttu nafni.

Ég velti fyrir mér, ef við tökum þessa tillöguna bókstaflega, hvort ákvörðunarvaldið um fjármál eigi þá ekki að liggja þá hjá forseta Alþingis, hvort forseti Alþingis eigi þá að hafa yfirumsjón með fjárreiðum stjórnlagaráðsins, segja já, við getum farið í þessi útgjöld, nei, við getum ekki farið í þessi útgjöld o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég spyr: Væri ekki heppilegra að það yrði skýrt nánar hvernig þetta fyrirkomulag (Forseti hringir.) á að vera áður en tillagan verður afgreidd endanlega frá Alþingi?