139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[19:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum frumvarpsins og tek undir þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. 1. flutningsmanns, Atla Gíslasonar. Ég held að hann hafi gert ágæta grein fyrir því að frumvarpið er flutt til að lagfæra lagatæknilega galla á löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að mikilvægt sé, fyrst ábendingar eru komnar fram um þætti af þessu tagi, að Alþingi bregðist við og geri þær lagfæringar sem nauðsynlegar eru.

Ég ætlaði við þessa umræðu eingöngu að árétta það sem fram kom þegar málið var rætt á vettvangi allsherjarnefndar, áður en það kom hér inn sem þingskjal, að við þurfum að skoða það betur og láta lesa það betur — þegar verið er að gera breytingar þá getur það leitt til annarra breytinga og fyrst við höfum nokkra daga til að vinna það verk er sjálfsagt að láta lesa það yfir af hálfu lögfræðinga og eins manna sem reynslu hafa af framkvæmd kosninga.

Ég vildi líka taka fram að það kann að vera að í allsherjarnefnd komi fram tillögur um fleiri breytingar í þessu efni, ég vildi bara nefna það hér. Slíkar tillögur eru ekki á borðinu eins og er en það kann að vera að ástæða verði til að gera tillögur um ívið fleiri breytingar, en þá einvörðungu út frá þessum lagatæknilegu sjónarmiðum en ekki út frá neinum efnisþáttum sem máli skipta.