139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[19:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og það kemur ekki á óvart að ég styð það. Ég kom ekki hér til að ræða um það efnislega heldur að segja frá því, eins og ég hygg að hafi komið fram í ræðu framsögumanns, að upphaflega stóð til að allsherjarnefnd flytti þetta sem slík, en úr varð að það gera átta þingmenn í allsherjarnefnd.

Ég tek þátt í þeim flutningi vegna þess að þær lagfæringar sem um er að ræða eru til komnar vegna mistaka í vinnslu þingsins og allsherjarnefndar, þess vegna sjálfsagt að nefndin, eða að minnsta kosti þorri nefndarmanna, flytji málið. Hér er ekki um það að ræða að framkvæmdarvaldið hafi falið nefndinni með einhverjum hætti að flytja málið sem ég tel ótæka aðferð nema í algjörum undantekningar- og nauðungartilvikum.