139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og fyrir ræðuna.

Maður er dálítið — hvað á ég að segja, þau tíðindi sem hér koma fram um gífurlegan kostnað ríkissjóðs vegna þessara niðurfærslna eru dálítið sláandi. Það er bara þannig. Það er sem sagt verið að greiða fyrir það að hér varð verðfall á fasteignum umtalsvert og ríkið ákveður að skera kúfinn af. Það var mikil verðhækkun áður og þeir sem keyptu eftir mitt ár 2004 hafa tapað stórlega á því, þ.e. íbúðirnar hafa lækkað töluvert meira en lánin sem menn tóku sem eru verðtryggð, og á sama hátt eru þeir sem keyptu áður enn þá í gróða.

Það sem ég er hugsi yfir er það að hér er verið að gefa fordæmi fyrir því að þegar svona verðfall verður eða þegar menn missa mikið af eignum af ýmsum ástæðum þá komi ríkið og skeri ofan af skuldunum. Það sem maður sér og það sem ég hef helst í huga er að í áratugi gerðist það úti á landi að fólk sem byggði hús þar fór yfirleitt úr segjum 5 millj. kr. eiginfjárstöðu niður í mínus 5 millj. kr. eiginfjárstöðu á þeim tíma. Það datt engum í hug að bæta fólki það upp á þeim tíma. Svo vil ég líka nefna að um allan heim eða víða um Evrópu og í Bandaríkjunum er gífurlega mikið verðfall á fasteignum og þar eru lán ekki verðtryggð en þar lenda menn líka í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort stjórnvöld í þeim ríkjum hafi gripið til sambærilegra aðgerða til að leiðrétta skuldastöðu. Í seinna andsvari á eftir ætla ég svo að spyrja um stöðu atvinnulausra.