139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt upplýsingum mínum hafa fasteignir fallið mikið í verði víða um Evrópu og mjög mörg heimili þar, og jafnvel stærra hlutfall en á Íslandi, hafa lent í þeirri stöðu að skuldir eru hærri en eignir. Það er vegna þess að eignir hafa lækkað í verði og þar er þó engri verðtryggingu um að kenna.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í eftirfarandi. Hann talar um að þetta muni örva eftirspurn. Það mun gerast mjög hægt því að þegar skuldir eru lækkaðar lækka afborganir á hverju ári um alla framtíð um sama hlutfall. Segjum að skuldirnar lækki um 30% þá lækka greiðslur um 30% um alla framtíð en ekki strax. Það væri miklu áhrifaríkara og hefði miklu meiri áhrif ef menn notuðu þá gífurlegu fjármuni, sem hér er verið að nota af fé skattgreiðenda, til þess að hækka eða bæta atvinnuleysisbætur. Eitt mesta áfall heimilanna í kjölfar hrunsins var atvinnuleysið en ekki endilega eignahrunið eða hækkun á verðtryggingu og jafnvel ekki hækkun á gengistryggðum lánum sem búið er að laga með aðstoð Hæstaréttar. Ég tel að atvinnuleysið, sá forsendubrestur hjá fólki að verða skyndilega atvinnulaust án þess að eiga von á því og eiga enga sök á því, hafandi komið upp fjölskyldu, eignast börn og keypt bíla, húsnæði og annað slíkt og verða svo allt í einu atvinnulaus og geta ekki borgað af lánum eða neitt, sé mesti forsendubresturinn. Mér finnst menn ekki hafa sinnt því nægilega mikið. Ætti ekki að setja þessa gífurlegu fjármuni í að bæta og hækka atvinnuleysisbætur? Það mundi fara beint í æð, það færi beint út í efnahagslífið vegna þess að þeir peningar væru notaðir til neyslu á hverjum tíma. Þeir peningar sem hér eru notaðir af skattpeningum fara í að lækka skuldir og koma einhvern tímann í framtíðinni til góða sem innspýting inn í efnahagslífið. Þetta er eiginlega versta leiðin til að örva atvinnulífið núna með miklum fjármunum.