139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil einnig þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir yfirferðina í málinu sem var ítarleg og greinargóð. Félags- og tryggingamálanefnd mun fara yfir málið og ræða það á nefndadögum í næstu viku.

Komið hafa fram nokkur atriði í umræðunni sem nefndin mun sannarlega þurfa að velta upp. Eitt af því sem þó hefur ekki komið upp er til að mynda hvort það muni þurfa að hnika til dagsetningum í síðustu málsgrein frumvarpsins þar sem talað er um 30. júní 2011. Það er ekki víst að frumvarpið verði orðið að lögum fyrr en í fyrsta lagi um miðjan þennan mánuð og það getur verið dálítið knappur tími fyrir Íbúðalánasjóð, sérstaklega með hátíðum og öðru sem kemur þarna inn á milli, að klára að vinna úr þeim umsóknum sem koma. Nefndin mun fara yfir það m.a. með starfsfólki Íbúðalánasjóðs og velferðarráðuneytisins hvort þörf muni verða á því.

Það er rétt að kostnaður vegna þessa úrræðis er óviss og er nánast útilokað að gera sér fullkomlega grein fyrir honum fyrir fram. Við munum samt reyna það eftir megni í nefndinni og væntanlega ræða við fulltrúa í fjárlaganefnd og/eða nefndina sjálfa með hvaða hætti það muni hafa áhrif og jafnframt hvernig gera þurfi ráð fyrir því annaðhvort á fjáraukalögum eða við fjárlög næsta árs. Afskriftaþörf Íbúðalánasjóðs vegna þessa máls er óviss eins og komið hefur fram. Það kann vel að vera að með því að greiðslustaða almennings batni almennt með þessu samkomulagi, muni það minnka nettóafskriftaþörfina í heild. Það verður kannski mikilvægasta afleiðingin af því að ljúka þessu máli og um leið aðstoða heimilin í landinu við að komast í það ástand sem hæstv. ráðherra orðaði svo vel áðan, að geta hugsað lengra fram í tímann en fram að næstu afborgun.

Nefndin mun fara ítarlega yfir málið á nefndadögum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja það.