139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem finna má á þskj. 911 og varðar það mál sem snýr að kyrrsetningu eigna. Sambærilegt mál var á síðasta löggjafarþingi og fest í lögum um tekjuskatt síðasta þingdag fyrir páska á síðastliðnu ári, 2010. Nú er það komið aftur á vettvang þingsins vegna þess að þegar farið var að starfa eftir lögunum var það niðurstaða dómstóla að ekki hefði verið fullnægjandi að setja heimildir til kyrrsetningar eigna einvörðungu inn í tekjuskattslögin eins og gert var, og vísa síðan í önnur lög og láta heimildina ná til þeirra, heldur væri nauðsynlegt að heimildin væri sett inn í lög um hvern einn skatt, t.d. virðisaukaskatt. Af þeim formástæðum er nauðsynlegt að gera breytingar á fleiri lögum en þá var gert ef ætlunin er að hafa heimildir í lögum til að kyrrsetja eignir vegna skattrannsókna sem þingið ætlaði að leiða í lög á síðasta þingi.

Ástæða þess að í þennan leiðangur var ráðist upphaflega var skýrsla Ríkisendurskoðunar sem sýndi okkur glögglega, því miður, að í flestum tilfellum er niðurstaðan sú þegar skattrannsóknir fara fram, upp kemst um skattsvik og sótt er eftir því fé sem skotið var undan og lagðar á fésektir, innheimtast fésektirnar ekki. Í langflestum tilfellum, þá loksins að það margra ára ferli er að baki, er engar eignir lengur að finna hjá hlutaðeigandi skattgreiðanda, hvort sem það er fólk eða fyrirtæki. Því er talið nauðsynlegt að styrkja og efla heimildir til að kyrrsetja eignir miklu fyrr í ferlinu þannig að menn geti ekki skotið þeim undan eða varið þeim til annarra hluta á meðan málin eru í rannsókn og vinnslu, en rannsókn og vinnsla á skattrannsóknarmálum eru eðli málsins samkvæmt alltaf tímafrekar. Þess vegna var það sett í lög í fyrra og sá skilningur sem það mætti í þinginu þá er auðvitað enn fyrir hendi. Það er vilji til að setja þær heimildir inn í fleiri lög með formlegum hætti til að bregðast við og uppfylla þær ábendingar sem Hæstiréttur hafði í því efni.

Mikið hefur verið rætt á vettvangi efnahags- og skattanefndar, bæði á síðasta löggjafarþingi og yfirstandandi þingi, hvort hér sé of langt gengið. Nefndin hefur fengið til sín fjölda gesta til að fjalla um það. Niðurstaða okkar í meiri hlutanum eftir þá umfjöllun er að sú heimild sem veitt er skattrannsóknarstjóra sé algerlega sambærileg við þá heimild sem lögreglan hefur til kyrrsetningar eigna. Það sé því löng hefð fyrir slíku úrræði í íslenskum lögum og reynsla af notkun þess. Hér er fleiri aðilum en lögreglunni, í þessu tilfelli skattrannsóknarstjóra, falin sú heimild af þeim efnislegu ástæðum sem ég áður rakti. Því miður er það reyndin að fésektir innheimtast nær aldrei því að eignir eru engar hjá þeim sem í hlut eiga þegar rannsóknum og ferlinu öllu er loks lokið.

Við umfjöllun málsins á síðasta löggjafarþingi taldi meiri hlutinn þó rétt, til þess að gæta meðalhófs og að réttindum þeirra sem í hlut eiga, að gera breytingar á frumvarpinu í þá veru að tryggja þeim sem fyrir þessu verða heimild til að skjóta málum sínum fyrir dóm og fá úrskurð þar um. Við umfjöllun að þessu sinni telur meiri hlutinn rétt að taka sérstaklega fram að heimildin sé bundin við skattrannsóknir er varða brot á 262. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. hún nær aðeins til alvarlegra brota. Það er alveg skýrt að úrræðið er til þess að kyrrsetja eignir þar sem umtalsverðar fjárhæðir eða alvarleg brot eru annars vegar en ekki til að nota í öllum málum, smáum og stórum, léttvægum og alvarlegum. Við í meiri hlutanum teljum að með þeim ráðstöfunum, því sem í frumvarpinu felast og með þeirri löngu reynslu sem er af notkun sambærilegrar kyrrsetningarheimildar í lögunum sé með fullnægjandi hætti tryggt að þeir sem fyrir þessu verða geti treyst því að það sé aðeins gert í alvarlegum málum og að þeir geti leitað með mál sín til dómstóla.

Með þessum breytingum mælum við í meiri hlutanum með því að málið verði gert að lögum. Að áliti meiri hlutans standa fulltrúar fjögurra af fimm stjórnmálaflokkum í nefndinni, stjórnarflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokks, þó með fyrirvara.

Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Magnús Orri Schram, Álfheiður Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þór Saari og Birkir Jón Jónsson, með fyrirvara.