139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég held að hljóti að vera óhætt að túlka svar hæstv. fjármálaráðherra sem svo að hann sé algjörlega ósammála hæstv. efnahagsráðherra. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra er sú að afstaða hæstv. efnahagsráðherra liggur fyrir, hann hefur margítrekað hana hvar sem hann fær tækifæri til. Hins vegar hefur ekki alveg legið fyrir hvort eining væri um þessa afstöðu í ríkisstjórninni en mér heyrist að svo sé ekki. Ég vil þó ítreka þá spurningu sem ég beindi til hæstv. fjármálaráðherra áðan: Er ráðherrann sammála hæstv. efnahagsráðherra um að gjaldeyrishöft verði í gildi á Íslandi á meðan menn nota krónuna sem gjaldmiðil?

Ég er hins vegar sammála því mati hæstv. fjármálaráðherra að auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um ríkisfjármálin, hvernig á þeim er haldið. Gjaldmiðill er alltaf bara mælikvarði á ríkisfjármálin á hverjum stað eða í hagkerfinu sem gjaldmiðillinn nær til. Þess vegna skiptir öllu máli að vel sé á því haldið.

Hver er afstaða hæstv. ráðherra til gjaldeyrishaftanna og afnáms þeirra? Eru gjaldeyrishöft fyrirsjáanleg á meðan menn nota krónu sem gjaldmiðil (Forseti hringir.) og ef ekki, hvenær sér hann fyrir sér að hægt verði að afnema þau?