139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég kýs að hafa þetta þannig að ég tala fyrir mín viðhorf og tel að það sé heppilegast að hver rökstyðji sín sjónarmið í þessum efnum. Það er vandasamt stórt og verkefni að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum, ég held að það sé öllum mönnum ljóst. Það kallar á það sem ég talaði um í ríkisfjármálunum og efnahagsmálunum almennt, öguð og vönduð vinnubrögð, og menn verða að stíga þar hvert skref yfirvegað og varlega.

Hins vegar er engin ástæða til að óttast það ef okkur tekst að standa þannig að stjórnun þessara mála að við séum með góðan afgang á viðskiptum við útlönd, og ef mat Seðlabankans á því hver skuldastaða þjóðarbúsins muni reynast þegar búið verður að gera upp gömlu bankana til muna hagstæðari en hún var árin fyrir hrunið. Með jákvæðum viðskiptajöfnuði og hagstæðari skuldastöðu er engin ástæða til að óttast það að við getum ekki undirbyggt stöðugleika með okkar eigin gjaldmiðli til næstu ára. Það munum við þurfa að gera því að því verður ekki breytt í einu vetfangi hvað sem framtíðin til (Forseti hringir.) lengri tíma kann að bera í skauti sér. En það mun kalla á að menn hafi þann aga (Forseti hringir.) og séu tilbúnir til að gera það sem gera þarf til þess í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Þar mun hin pólitíska glíma liggja. Svo fremi (Forseti hringir.) sem menn standa í lappirnar í þeim efnum er þetta vel hægt.