139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

bólusetning barna gegna eyrnabólgu og lungnabólgu.

[15:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með svar við henni því að hún er óundirbúin og ég hef ekki náð að fara yfir þetta mál í heild sinni. Ég frétti þetta í fjölmiðlunum eins og aðrir að þarna væri um að ræða tafir vegna þess að menn hefðu hopað undan vegna kæru í útboðsferli. Það er svo sem þekkt fyrirbrigði að menn lendi í slíku en þá er spurningin hver viðbrögðin verða í framhaldinu. Framkvæmdin hefur ekki verið í ráðuneytinu sjálfu heldur annars staðar og þar af leiðandi hefur málið ekki verið tekið formlega fyrir hjá okkur.

Það sem ég lít á í framhaldi af þessari fyrirspurn er að ég mun leitast við að svara þessari spurningu, hvernig við bregðumst við til að þeir þrír mánuðir sem hér eru nefndir detti ekki út við þessa tveggja, þriggja mánaða seinkun. Ég tek undir mikilvægi þessarar bólusetningar, það skiptir máli að ákvörðun þingsins verði fylgt eftir og það mun verða gert af fullum þunga. En ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki fengið tækifæri til að skoða nákvæmlega stöðu málsins og hvernig menn fara með þetta í framhaldinu.