139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

skólamál.

[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að inna hv. mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, eftir því hvort hún hyggist á komandi vori breyta innritunarreglum í framhaldsskóla og hverfa frá þeirri hverfaskiptingu og því hólfalagi sem til varð síðasta vor og veita nemendum sem útskrifast nú úr tíunda bekk valfrelsi þannig að þeir taki sjálfir ákvörðun um í hvaða skóla þeir fara til að stunda nám.

Fyrir skömmu gengu á fund ráðherra ungmenni sem sjálf höfðu staðið fyrir undirskriftasöfnun til að hverfa frá því skipulagi sem nú er. Það frumkvæði þeirra sjálfra segir meira en mörg orð um ósk ungmenna til að ráða sjálf í hvaða skóla þau fara hafi þau tök á því almennt.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins er innt af hendi núna þegar mörg sveitarfélög og kannski sérstaklega Reykjavíkurborg hyggja á sameiningu leik- og grunnskóla. Hvort og hvernig það sé tryggt að réttindi barna og ungmenna samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla séu virt og hvort eftirlitshlutverk ráðuneytisins bæði gagnvart Reykjavíkurborg sem og öðrum sveitarfélögum sem hyggja á slíkar breytingar sé virt.