139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

skólatannlækningar.

505. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svör hans sem voru skýr og undirbúin og jafnframt innlegg hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í þessa umræðu sem hefur, að mati þess sem hér stendur, allt of mikið legið í láginni á undangengnum árum á þeim liðlega áratug sem liðinn er frá því að skólatannlækningar, alla vega í Reykjavík, voru lagðar niður illu heilli.

Skólatannlækningar kunna að vera stórt orð, sérstaklega í ljósi þess hvað þær kosta eins og hæstv. velferðarráðherra kom að. Fjórir milljarðar eru vissulega miklir peningar, ekki síst á þeim stundum þegar endar ná ekki saman í ríkisbúskapnum. En hins vegar er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir fjölskyldur í landinu. Hér er verið að ræða um einn stærsta þátt í heilsufari ungmenna og barna sem við eigum og verðum að hafa efni á.

Forvarnaskoðun getur vissulega komið til álita í auknum mæli og ég tek undir að það verði að skoða allar leiðir í þeim efnum. Skólatannlækningar þurfa í sjálfu sér ekki endilega að fara fram í skólum eins og nafnið bendir kannski til heldur þarf að nota skólakerfið til að huga betur að tannvernd og tannheilsu barna og ungmenna.

Ég spyr hæstv. velferðarráðherra að lokum þeirrar grundvallarspurningar sem málið hverfist um: Hver eru hin raunverulegu rök fyrir því að skólatannlækningar standa einar heilsuþátta utan hins opinbera heilsukerfis? Eru ef til vill einu rökin þau að við þykjumst ekki hafa efni á þessum þætti í heilsu íslenskra ungmenna?