139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kann ekki að skýra allar þær verðbreytingar sem komið hafa til sögunnar á síðustu mánuðum og missirum, en þær kerfisbreytingar sem ég vísaði til eru fyrst og fremst breytingar sem fyrirhugaðar eru í stjórnsýslunni en hafa ekki enn átt sér stað. Við erum að sjálfsögðu að reyna að gera allt sem við getum til að halda tilkostnaði niðri. Það væri gott ef ég gæti lofað því að við ættum ekki í vændum frekari hækkanir en því get ég því miður ekki lofað einfaldlega vegna þess að fjármunirnir eru ekki fyrir hendi. Við stillum Isavia, sem er rekstraraðili flugvallanna, mjög stíft upp að veggnum, annars vegar að krefjast þjónustu, en jafnframt niðurskurðar. Það kallar á endurskipulagningu og markvissa nýtingu fjármunanna og við reynum eftir því sem við getum í ráðuneytinu að standa vaktina með Isavia hvað þetta snertir, en að sjálfsögðu viljum við ekki að bitni á þáttum eins og sjúkraflugi sem hér var gert að umræðuefni, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi þann þáttinn sérstaklega. Ég hef fengið upplýsingar um það í ráðuneytinu að því hafi þegar verið komi á framfæri við Isavia að það sé kostnaðarauki sem við getum ekki sætt okkur við. Ég segi jafnframt að við erum að setja Isavia stöðugt upp að vegg, skerum niður þjónustuna en krefjumst hennar að fullu á móti.

Ég vil síðan ítreka það sem fram kom í máli mínu að ég tel að innanlandsflugið eigi um næstu ár og eins langt fram í tímann og ég sé að vera á Reykjavíkurflugvelli. (Forseti hringir.) Spurt er í þessu samhengi hvort það hangi saman við sjúkrahúsið fyrirhugaða í Vatnsmýrinni. Það er komið þangað á öllum teikningum að því er ég (Forseti hringir.) best veit og menn tengja nokkuð saman hagræðið að því að hafa sjúkrahúsið og innanlandsflugið á sama stað.