139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

varastöð ríkislögreglustjóra á Akureyri.

504. mál
[16:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er ég ekki með lagatextann hjá mér en hv. þingmaður rifjar hér upp tildrög þess að varastöð ríkislögreglustjóra á Akureyri yrði komið á fót, segir að aðstaðan hafi verið sköpuð en mannskapinn vanti. Þetta rímar í raun við þær upplýsingar sem ég fékk frá ríkislögreglustjóra nema að menn þar á bæ lögðu annan skilning í hvað til stóð.

Við í innanríkisráðuneytinu leituðum umsagnar hjá embætti ríkislögreglustjóra um málið í tilefni af þessari fyrirspurn. Þar kemur fram að ekki hafi staðið til af hálfu ríkislögreglustjóra að starfrækja varastöð embættisins á Akureyri að jafnaði. Bendir ríkislögreglustjóri á að varastöð fyrir fjarskiptamiðstöð, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Neyðarlínuna hafi verið tekin í notkun á Akureyri þegar lokið var endurbótum á húsnæði lögreglunnar á árinu 2004 og hafi lögreglan á Akureyri notað fjarskiptamiðstöðina þegar stærri viðburðir voru í umdæminu, en hún er samtengd fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð í Reykjavík. Aðstaðan er þarna og virðist samkvæmt þessum upplýsingum hafa verið starfrækt sem varastöð þegar á hefur reynt.