139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

varastöð ríkislögreglustjóra á Akureyri.

504. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans að sinni.

Samkvæmt þeim lögum sem vísað var til hér áðan, nr. 40/2008, er kveðið á um að komið sé upp tveimur borðum og starfsaðstöðu fyrir átta manns í svokallaðri varastöð á Akureyri, að hún sé mönnuð eftir því sem ég best veit á hverjum tíma og geti gripið inn í ef stöðin í Reykjavík verður óstarfhæf sakir ýmissa aðstæðna sem geta komið upp eins og við þekkjum hér á landi.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra í ljósi mismunandi skilnings sem menn leggja í þessa varastöð hvort hann telji eðlilegt og viturlegt að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni, eins og ég kom að í fyrra innleggi mínu, heldur koma varastöðinni á laggirnar með manni og mús ef svo má segja. Slík vaktstöð á Akureyri getur annað tveggja þjónað sem öryggisatriði þegar og ef stöðin í Reykjavík getur ekki sinnt störfum sínum og eins geta starfsmenn þar á eðlilegum tímum sinnt margvíslegri þjónustu fyrir hönd þeirra sem starfa að þessum málum á öðrum stöðum. Um er að ræða eðlileg störf án staðsetningar þegar kemur að öryggismálum þjóðarinnar.

Ég spyr sum sé ráðherra hvort hann sé sammála mér um að þessi starfsemi geti verið þarna lögum samkvæmt og eigi þar heima í hagræðingarskyni, svo dæmi sé tekið.