139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi þátt almenningssamgangna sem hv. þingmaður vék síðast að er það nokkuð sem við erum með til sérstakrar skoðunar núna í innanríkisráðuneytinu. Það hefur verið áhugamál okkar margra að horfa til vegaframkvæmda og almenningssamgangna undir sama kastljósinu. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Það er spurt hvenær stórframkvæmdir í vegamálum hefjist á suðvesturhorninu. Í öðru lagi hvernig ráðherra hyggist auka hlut suðvesturhornsins hvað varðar nýframkvæmdir í vegamálum.

Undanfarið ár hefur verið unnið að stórum verkefnum á suðvesturhorninu. Má þar nefna Suðurstrandarveg, en framkvæmdir á kaflanum frá Þorlákshöfn í Herdísarvík eru í gangi og framkvæmdir eru við kaflann frá Herdísarvík að Ísólfsskála. Þær hefjast innan skamms.

Einnig má nefna áframhaldandi tvöföldun Reykjanesbrautar sem er í undirbúningi en fjármögnun liggur ekki fyrir. Hið sama má segja um tvöföldun Suðurlandsvegar milli Rauðavatns og Vesturlandsvegar, en unnið er að undirbúningi hennar. Fjármögnun þessara verkefna er erfið vegna stöðu ríkissjóðs um þessar mundir eins og við öll þekkjum mætavel.

Rætt hefur verið um að fjármagna vegaframkvæmdir með vegatollum, en þær fyrirætlanir hafa mætt mikilli mótstöðu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um vegatolla, en ég hef verið tilbúinn að tala því máli ef um er að ræða stórframkvæmdir sem ráðist er í sem eins konar flýtiframkvæmdir. Við erum t.d. á þessu ári aðeins með um 6 milljarða kr. til ráðstöfunar til nýframkvæmda í vegakerfinu. Menn hafa talað um flýtiframkvæmdir á næstu fimm árum sem nema allt að 40 milljörðum. Ef við ætlum að gera það utan vegaáætlunar þarf að horfa til annarrar tegundar fjármögnunar. Menn standa þá frammi fyrir því vali. Vilja menn það eða vilja menn það ekki? Ef menn eru því andvígir ráðumst við ekki í þessar flýtiframkvæmdir, svo einfalt er þetta mál í mínum huga.

Ég horfi til þess hvað er heppilegt út frá þrennu, hvernig við bætum samgöngukerfi landsins, hvernig við aukum öryggi á vegum landsins og hvernig við bætum vegina og þar með samgöngurnar þar sem vegirnir eru verstir. Þetta eru þau þrjú sjónarmið sem við horfum til.

Ég ítreka að ef við ætlum að ráðast í flýtiframkvæmdir, t.d. sunnan og austan Hellisheiðar, verður að koma til fjármagn annars staðar að en úr ríkiskassanum. Þetta er mjög einfalt mál. Við verðum að ræða það mjög opinskátt og alveg heiðarlega vegna þess að þessir fjármunir eru ekki til. Þeir eru ekki til þannig að það ræðst af þessu hvaða leið menn vilja fara í þessu efni.

Ég hef átt ágæta fundi með sveitarstjórnarfólki og þingmönnum Suðurlands og héðan af suðvesturhorninu. Þar hafa þessi áform mætt mikilli andstöðu, verið gagnrýnd mjög harðlega. Gott og vel, þá hlustum við á þá gagnrýni. Ég hef sagt að ég muni aftur eiga fund með sömu aðilum fljótlega, það er verið að skipuleggja slíkan fund. Þá ætla ég að heyra hvaða sjónarmið eru uppi og á þeim forsendum ræðum við málið.

Mér fyndist rangt að gefa einhverjar falsvonir, draga upp einhverja mynd um að við getum gert allt, þjónað öllum. Það getum við ekki. Við verðum að velja og hafna. Ég segi fyrir mitt leyti og hef gert það áður í þessum stól að í mínum huga þarf samgöngukerfið á Vestfjörðum mest á úrbótum að halda. Vestfirðir þurfa að forgangsraðast.

Út frá öryggisþáttunum horfi ég á Reykjanesbrautina við álverið. Ég hef sannfærst um að það sé hættulegasti kafli landsins. Þar eigum við að forgangsraða líka. Síðan eigum við að horfa til annarra þátta, þá hugsanlega til þess hvort við getum gert hlutina á ódýrari hátt en menn höfðu á prjónunum á árinu (Forseti hringir.) 2007 eða þar um bil.