139. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2011.

tollalög o.fl.

584. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum á þskj. 1001. Þetta er málefni sem hv. þingmenn þekkja ágætlega.

Frá hruni hafa verið gefnir greiðslufrestir á ýmsum gjöldum vegna greiðsluerfiðleika í atvinnulífinu. Fyrirhugað var að þeir yrðu veittir í síðasta sinn í nóvember og desember síðastliðnum en nokkuð hefur dregist að vinna úr greiðsluerfiðleikum í atvinnulífinu og við teljum þess vegna málefnalegar ástæður vera til þess að veita slíka fresti einu sinni enn. Nokkur samstaða er um að það verði nú gert í síðasta sinn.

Athygli okkar í efnahags- og skattanefnd var vakin á þessari stöðu á mánudaginn af hálfu fulltrúa úr atvinnulífinu. Þá vildi svo til að í þinginu var nefndavika og því ekki unnt að bregðast við þeim ábendingum og óskum sem komu frá atvinnulífinu um þetta í þeirri viku. Þess vegna er málið nú flutt. Ég þakka góða samvinnu í efnahags- og skattanefnd og milli þingflokka um að greiða fyrir því að það geti hlotið afgreiðslu í dag þannig að ívilna megi með þessum hætti atvinnulífinu og þeim fyrirtækjum sem enn fást við greiðsluerfiðleika í kjölfar þess hruns sem hér varð.