139. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2011.

tollalög o.fl.

584. mál
[17:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingu á tolla-, vörugjalda- og virðisaukaskattslögum. Ég held að ekki sé úr vegi að fara vel yfir tollflokkana.

Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, minntist á áðan var þingnefndinni, efnahags- og skattanefnd, bent á það í síðustu viku að falla mundi úr gildi undanþága sem ríkt hafði um dreifingu á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum. Þetta virðist hafa komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Enginn virðist hafa gert sér grein fyrir þessu og ber það kannski vott um vinnubrögðin í þinginu um þessar mundir að grípa þurfi til svona reddinga eins og hér er verið að gera þar sem málið er tekið í gegn á örskammri stundu.

Ég er persónulega mjög meðmæltur málinu, það kemur til móts við þarfir atvinnulífsins, en um leið vil ég lýsa því yfir að ég er ekki meðmæltur þessum vinnubrögðum. Það á náttúrlega ekki að gerast að hér dúkki upp svona mál án þess að nokkur hafi gert sér grein fyrir því og það þurfi að þvinga það í gegnum þingið, getum við sagt, á jafnskömmum tíma og hér er gert. (BJJ: Hneyksli.) Ég styð þetta mál þrátt fyrir að hv. þm. Birkir Jón Jónsson kalli „hneyksli“ úr salnum. [Hlátur í þingsal.]