139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

upplýsingamennt í grunnskólum.

499. mál
[17:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Ég vil þó nefna í upphafi að talsvert hefur verið unnið að stefnumótun í þessum málum og það byrjaði auðvitað fyrir mína tíð í ráðuneytinu. Ég nefni að í aðalnámskrá grunnskóla, greinahluta um upplýsinga- og tæknimennt frá árinu 2007, var þá þegar lögð aukin áhersla á upplýsingalæsi m.a. til að koma til móts við síbreytilegan heim tækni, upplýsinga og samskipta. Þar er miðað við þá þekkingu og hæfni sem þarf til að afla upplýsinga, flokka úr, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt.

Upplýsingalæsi má kalla kjarna upplýsingamenntar. Skólum ber auðvitað að leggja áherslu á að nemendur öðlist hæfni í að afla upplýsinga á sjálfstæðan hátt, læri að afla upplýsinga úr bókum, tölvum, myndefni, hljóðrituðu efni og öðrum þeim miðlum sem til greina koma og fjölgar alltaf. Samhliða því eiga nemendur kost á að læra að meta upplýsingar, vinna úr þeim skipulega og setja fram niðurstöður.

Í aðalnámskrá grunnskóla, almenna hlutanum frá 2007, segir í viðmiðunarstundaskrá að upplýsinga- og tæknimennt skuli kennd í a.m.k. 160 mínútur á viku í 1.–4. bekk, 120 mínútur í 5.–7. bekk og 40 mínútur í 8.–10. bekk. Jafnframt er gert ráð fyrir að hún sé samþætt öðrum námsgreinum.

Í drögum að nýrri aðalnámskrá, sem er núna í mótun, er gert ráð fyrir að tímum í upplýsinga- og tæknimennt verði fjölgað en þeir ekki skertir. Það skýrist m.a. af áherslu á læsi í nýrri menntastefnu með sérstakri áherslu á miðlamennt og gagnrýna nálgun á upplýsingar. Ég held að þetta sé í raun og veru undirstaða fyrir mjög margt annað og við höfum því lagt áherslu á að það skili sér bæði í námskránni og í kennsluháttum.

Eðli þessa fags er þverfaglegt að vissu leyti. Það snýst um að kenna og leiðbeina nemendum um aðferðir og tækni við öflun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga í tengslum við annað nám. Það getur auðvitað stundum skapað úrlausnarefni, þ.e. kennarar í upplýsingamennt þurfa að geta unnið með öðrum kennurum að gerð kennsluáætlana og aðferðafræði upplýsingamenntar nýtist í öðrum greinum og fer kannski út fyrir mörk kennslustofunnar og inn á söfnin sem hv. þingmaður nefndi, tölvuverin eða upplýsingaverin.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar er ekki að sjá að dregið hafi verið almennt úr kennslu í upplýsingamennt á tveimur síðustu skólaárum. Ráðuneytið hefur þó ekki upplýsingar vegna yfirstandandi skólaárs og þær munu ekki liggja fyrir fyrr en í haust. Samkvæmt fyrirliggjandi tölum vegna skólaáranna 2008–2009 og 2009–2010 fækkaði kennslustundum í upplýsinga- og tæknimennt í 1.–5. bekk í 37 skólum af 175 en fjölgaði í 27 skólum og stóð í stað í 111 skólum. Þegar komið er upp í 5.–7. bekk fækkar tímum í 23 skólum en fjölgar í 33 skólum. Við sjáum því að það er í raun og veru fjölgun fremur en fækkun en fjöldi tíma stendur í stað í 119 skólum. Í 8.–10. bekk er þetta nánast jafnt, þ.e. tímum fækkar í 43 skólum en fjölgar í 46 og standa í stað í 86 skólum. Við fylgjumst því auðvitað með og fáum upplýsingar bæði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofunni og við sjáum ekki enn nein hættumerki þegar kemur að fjölda tíma.

Hv. þingmaður nefndi skólasöfnin og rétt er að þar hefur verið skorið niður. Ég vil nefna að fyrirhugað er á þessu vorþingi að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um grunnskóla. Meðal þess sem þar verður lagt til er að setja inn ákvæði að nýju um skólasöfn í grunnskólum í lagagrein um skólahúsnæði. Það er ákvæði sem verður aftur sett inn og snýr að því að í öllum grunnskólum sé gert ráð fyrir skólasafni eða aðgangur nemenda að þjónustu slíks safns sé tryggður með öðrum hætti. Þetta er gert til samræmis við lagabreytingar á framhaldsskólalögum frá 2010 sem nutu stuðnings hv. þingmanna þvert á flokka. Hugsunin er sú að með þessu séu skólasöfn styrkt í sessi í samræmi við þá stefnu að læsi sé einn af grunnþáttum menntunar.

Við áttum okkur að sjálfsögðu á því að á tímum hagræðingar og sparnaðar er enn mikilvægara en ella að eftirlit ráðuneytisins sé virkt svo réttur nemenda til náms og kennslu sé tryggður. Hv. þingmaður spurði um stefnumótun. Ég lít svo á að stefnan hafi verið mörkuð í nýju námskránum. Mestu skiptir núna að henni verði fylgt eftir og kennsla í læsi og upplýsingalæsi verði tryggð. Hlutverk skólastofnana skiptir þar verulegu máli en líka ýmsir aðrir þættir. Ég held því að miklu skipti að við stöndum áfram vaktina í þessum efnum.