139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

upplýsingamennt í grunnskólum.

499. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæð og góð viðbrögð við þessum hugrenningum mínum og spurningum og fagna því sérstaklega að skólasöfn verði styrkt í sessi með lagasetningu. Ég held að það skipti verulega miklu máli. Ég veit að gert er ráð fyrir því í nýrri aðalnámskrá að tímum í upplýsingamennt verði fjölgað. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að eðli upplýsingamenntar er þannig að hún verður ekki kennd afmarkað og sér í stundaskrá í tímum sem heita endilega upplýsingamennt. En ég held að það skipti mjög miklu máli, í því þverfaglega starfi sem þarf að eiga sér stað í upplýsingamenntinni, að það séu samt ákveðnir verkstjórar sem hafa sérmenntun á þessu sviði, sem hafa sérstaka þekkingu á því hvernig skólasöfnin verði nýtt sem best og hvernig tölvurnar verði nýttar sem best sem í raun og veru stjórna þessu þverfaglega samþætta starfi.

Ég held að við þurfum að gæta vel að okkur. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir þá er ýmist fækkun eða fjölgun á tímum í þessum mikilvægu greinum. Það er erfitt vegna þess að það sýnir okkur að þá er ákveðin mismunun eftir skólum og það er ekki þannig kerfi sem við viljum hafa. Við viljum gjarnan að allir nemendur okkar sitji við sama borð.

Eins og ég sagði áðan er ég bjartsýn af því að ég heyri að hæstv. ráðherra er á þeirri línu að það sé afar mikilvæg starfsemi sem fram fer í þessum upplýsinga- og gagnaveitum, hvort sem það eru skólasöfn eða tölvuverin. Ég legg áherslu á að við eigum að nýta þá sérfræðiþekkingu sem til er til verkstjórnar í þessu mikilvæga efni.