139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að þegar fjármunum er deilt út, og ekki síst þegar þeir eru takmarkaðir, má alltaf deila um hvaða aðferðafræði nákvæmlega skuli viðhöfð í því. Hins vegar er það mitt mat að það sé jákvætt að hafa reiknilíkan sem byggist á sambærilegum stærðum milli framhaldsskóla landsins fremur en til að mynda að þetta sé ákveðið eingöngu út frá tilfinningu eða öðru slíku. Það skiptir máli að geta reiknað út ákveðnar stærðir og í því reiknilíkani sem nú er nýtt til að deila út fjármunum til framhaldsskóla spila ýmsar stærðir og breytur inn í.

Þar er hins vegar hollt og gott að ræða allar þessar forsendur og allar þessar breytur og vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Við getum farið aðeins yfir það hvað fjárlagatölur sýna. Þær sýna að kostnaður á hvern ársnemanda í framhaldsskóla er mjög mismunandi. Ef við berum saman ólíka skóla, hvað varðar stærð, staðsetningu og námsframboð, kemur í ljós að kostnaður á hvern nemanda samkvæmt niðurstöðum líkansins er mun hærri í fámennum skólum en fjölmennum, þ.e. þeir nemendur kosta meir. Reiknilíkanið gerir ráð fyrir hærri kostnaði á hvern nemanda í fámennum skólum og hvað varðar misvægi kostnaðartalna á milli álíka stórra skóla þá skýrist það fyrst og fremst af mismunandi húsnæðiskostnaði. Þannig má til að mynda skýra hærri framlög á hvern nemanda í Framhaldsskólanum á Laugum í samanburði við Framhaldsskólann á Húsavík. Þá kemur húsnæðiskostnaður inn í breytuna og hefur áhrif á þessar tölur á hvern nemanda.

Ég vil líka nefna að hlutfall verknáms í námsframboði hefur áhrif. Ef við berum til að mynda saman bóknámsskóla á borð við Menntaskólann í Reykjavík og svo Borgarholtsskóla þar sem verulegt framboð er af verknámi þá skýrir það af hverju nemendur í Borgarholtsskóla kosta almennt meira en nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík.

Nú gerist ég mikill talsmaður reiknilíkana: Það er auðvelt að skella allri skuld reiknilíkön en þetta reiknilíkan hefur tekið margvíslegum breytingum á undanförnum 10–12 árum, nýjum forsendum hefur verið bætt inn í útreikninga á fjárframlögum. Stundum er það vegna vilja þingsins, eins og til að mynda þegar fjárlaganefnd hafði afskipti af líkaninu, bæði árið 1999 og árið 2007, vegna slæmrar stöðu lítilla skóla á landsbyggðinni. Þær breytingar urðu til hagsbóta fyrir þá og meðal þess sem var breytt og sett inn var viðmiðunin „fjarlægð frá Reykjavík“ — fámennir skólar eru nær eingöngu utan Reykjavíkur þar sem kílómetrafjöldi er margfaldaður með fastri krónutölu á hvern nemanda. Auðvitað getum við deilt um það hvort þetta sé rétti mælikvarðinn en þar er a.m.k. tilraun til að leiðrétta dálítið stöðu fámennra skóla í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

Sú breyting var einnig gerð 2009 að húsnæðishvati, sem virkaði í raun þannig að skólar högnuðust á því að búa þröngt, var tekinn út úr líkani. Sú breyting kom sér vel fyrir fámenna skóla, ekki síst ef húsnæði var rúmt eins og til að mynda á við Framhaldsskólann á Laugum sem ég nefndi áðan. Líkaninu hefur því verið breytt til hagsbóta fyrir fámennari skóla með vitund og jafnvel að frumkvæði Alþingis. Því má segja að ég svari spurningu hv. þingmanns játandi, þetta líkan má nýta til að deila út fjármunum til bæði fámennra og fjölmennra skóla. Það skiptir miklu máli að við séum vakandi gagnvart því að það getur þurft að grípa til sértækra aðgerða til að tryggja stöðu fámennra skóla, til að mynda með því að miða við að skólarnir missi ekki fjárframlög þó að nemendafjöldinn færi undir ákveðið gólf. En við sjáum líka að það er kannski fullmikil einföldun að horfa eingöngu á kostnað á ársnemanda. Svo að dæmi sé tekið kostar einn nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík 512 þúsund en í Menntaskólanum á Egilsstöðum kostar hann 822 þúsund, í Verkmenntaskóla Austurlands er kostnaðurinn kominn yfir 1 milljón, 1.159.000.

Eins og ég hef reynt að skýra virka þarna margar breytur saman, þ.e. fjarlægðin, fámennið, ólíkt námsframboð. Tilraunin með líkaninu er aldrei endanleg, reynt er að finna sem réttlátasta dreifingu þannig að við getum haldið uppi öflugu framhaldsskólastarfi um land allt.