139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[18:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var ítarlegt eins og gefur að skilja. Ég tel rétt að draga fram að mikill pólitískur vilji var fyrir lengdu kennaranámi; m.a. var litið til Finnlands, reynt að ná því besta sem Finnar hafa gert í skólakerfi sínu. En um leið og við viðurkennum akademískt frelsi háskóla eins og HÍ og HA skiptir líka miklu máli að við sjáum þær áherslur sem við á þingi höfum samþykkt í skólalöggjöfinni birtast í skólunum.

Við förum fram á aukinn sveigjanleika. Við viljum m.a. sjá þann aukna sveigjanleika birtast í kennsluefninu og uppbyggingu námsins innan háskólanna. Eins og hæstv. ráðherra lýsti því verð ég að segja að þeir sýna það. Mér finnst til að mynda gott að sjá fram á að Háskólinn á Akureyri muni leggja mikla áherslu á að kenna fyrstu stigin, þ.e. kenna fyrsta leikskólastigið með því að tengja það fyrsta stigi grunnskólans þannig að menn geti raunverulega byggt upp sveigjanleg skólaskil. Ég trúi ekki öðru en að það muni líka gilda um efsta stig grunnskólans og inn í framhaldsskólann, að þar verði líka þessi víxlverkun. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgjast mjög gaumgæfilega með þessari þróun án þess þó að trufla hið akademíska frelsi.

Það er eitt sem ég hef verulegar áhyggjur af og það er að sjá innritunartöluna núna í leikskólakennaranám. Hvernig hyggst ráðherra beita sér í því máli? Á hvað mun ráðherra leggja áherslu til að við sjáum fram á að fleiri sækist eftir leikskólakennaranámi? Þá erum við kannski komin svolítið inn á næstu fyrirspurn sem ég verð með til ráðherra því að það er mikið áhyggjuefni ef bestu nemendurnir sækja ekki sem skyldi í kennaranámið, hvort sem það er á leik-, grunn- eða (Forseti hringir.) framhaldsskólastigi.