139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég lít á það sem einn stærsta styrkleika íslenska menntakerfisins hvað þar starfa góðir kennarar með trausta menntun og óbilandi áhuga á starfi sínu og nemendum. Ekki hefur verið skortur á kennaramenntuðu fólki nema þá helst á leikskólunum eins og hér hefur komið fram. En við sjáum hins vegar að kennarar hafa í stórum stíl leitað í önnur störf þar sem þeim bjóðast betri kjör og þægilegri starfsaðstæður en í skólunum. Brottfall ungra kennara til að mynda úr skólum landsins ætti að vera okkur sérstakt umhugsunarefni. Það skiptir því miklu máli að við horfum á það heildstætt hvernig við getum eflt kennarastarf á öllum skólastigum.

Ég vil nefna rannsókn á vegum OECD, sem Íslendingar tóku þátt í, á vinnuumhverfi og högum kennara og skólastjórnenda sem er kölluð TALIS. Fyrsti hluti fór fram vorið 2008. Niðurstöður hennar, sem hefur einhvern tíma borið á góma í þessum sal, veita okkur innsýn í hugmyndir kennara um starf sitt og það sem má betur fara. Þar má auðvitað líka finna samanburð við aðstæður kennara, starfskjör og hugmyndir í 22 öðrum löndum.

Ef við reynum að draga einhvern lærdóm af þessari rannsókn má ýmislegt um hana lesa í skýrslum sem voru unnar hjá Námsmatsstofnun. Íslenskir kennarar eru um margt líkir starfssystkinum sínum á Vesturlöndum. Þar eru þó mikilvæg frávik sem varða menntun íslenskra kennara sem við höfum verið að ræða og starfskjör. Unnið er að því að bæta grunnmenntun kennara með löggjöfinni sem var samþykkt 2008 og var til umræðu áðan og mun það auðvitað fela í sér mikla eflingu kennarastarfsins.

Annað atriði sem vekur athygli mína í svörum kennara í TALIS-rannsókninni varðar símenntun. Íslenskir kennarar, a.m.k. í grunnskólum, virðast hafa minna val á símenntun en kennarar í öðrum löndum. Þeir taka minni þátt í símenntun og viðfangsefni þeirra eru einsleitari.

Ég setti á laggirnar nefnd í kjölfar þessarar skýrslu og fól henni að fjalla um mögulega endurskipulagningu endurmenntunar kennara í ljósi þessarar TALIS-könnunar en líka í ljósi nýrra laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla, laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda og væntanlegra breytinga á skipulagi kennaramenntunar. Nefndinni var falið að huga að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru, nánari tengingu endurmenntunartilboða við almenna kennaramenntun og möguleikum kennara á að sækja endurmenntun á fagsviði. Síðan var óskað tillagna um heildstæða útfærslu á endurmenntun sem nýtist kennurum á öllum skólastigum. Þar sátu saman fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá kennarasamtökum og háskólum sem mennta kennara.

Nefndin aflaði margvíslegra gagna og reyndi að kortleggja það fjármagn sem nú er varið til símenntunar kennara og streymir eftir ólíkum leiðum í óþarflega flóknu kerfi. Niðurstöður nefndarinnar eru settar fram sem markmið, leiðir og tillögur um næsta skref. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, háskólarnir og kennarasamtök gefi annars vegar út viljayfirlýsingu um samvinnu og þróun samstarfsvettvangs sem kortleggi þá símenntun sem núna er í gangi, leggi línur um stefnumótun til framtíðar og hins vegar að gerð verði viljayfirlýsing um samvinnu um símenntun kennara og þróun sameiginlegrar upplýsingagjafar á vefsvæði þvert á skólastig þannig að ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólar landsins vinni að því að auðvelda kennurum að sækja símenntun, ekki síst til háskólanna.

Við vinnum nú að því með menntavísindasviði Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að auka framboð símenntunar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og bæta við í tengslum við innleiðingu laganna útgáfu aðalnámskrár og endurskipulagningu kennaramenntunar.

Þegar stefnan er klár held ég að við verðum að horfa til þess að hugsanlega þurfi aukið fjármagn. Ég hef ekki enn tæpt á öðrum þáttum sem varða starfsumhverfi en niðurstaðan úr þessari TALIS-rannsókn var sláandi. Annað sem því tengist eru kjör kennara. Við sjáum það í þessum alþjóðlega samanburði að þrátt fyrir umtalsverðan kostnað hér á landi við grunnskólastigið skilar hann sér ekki í háum launum. Það er nokkuð sem mér finnst full ástæða að ræða, eins og hv. málshefjandi gerði. Hvernig viljum við sjá samninga þróast? Hver er okkar pólitíski vilji í þeim málum? Hvernig getum við bætt kjör kennara? Ég held að í raun sé þverpólitískur vilji til þess. Þessar stéttir eru þær mikilvægustu sem við eigum og það skiptir máli að þær njóti góðra kjara og það er áhyggjuefni að íslenskir kennarar njóti verri kjara en starfssystkini þeirra í nágrannalöndunum. En við erum sem sagt að vinna út frá þessum línum. Hvernig getum við sett nýrri og samhæfðari stefnu um símenntun og endurmenntun kennara? (Forseti hringir.) Við erum að horfa til lengingar kennaramenntunar og síðan þarf auðvitað að taka kjörin fyrir en þá er alltaf spurning um fjármagn að einhverju leyti.