139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling iðn- og tæknináms.

521. mál
[18:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það vilja allir efla iðn- og starfsnám og ég held að ráðherra hafi farið einmitt ágætlega yfir hvernig að því hefur verið unnið á undanförnum árum. Alltaf má gera gott betur, alla vega er grunnurinn kominn sem við getum öll unnið eftir. Hlutfallið hefur í rauninni ekki breyst í áranna rás og það er kannski svolítið ankannalegt miðað við orðræðuna sem er í gangi.

Ég vil hins vegar velta vöngum yfir starfsgreinaráðunum, af því að þau eru beintenging við atvinnulífið og atvinnulífið á með þeim að hafa tengingu inn í skólakerfið. Hafa þau hafi komið að skólakerfinu í þeim mæli sem menn óskuðu eftir? Ég vil beina spurningu til hæstv. ráðherra um tilraunafyrirkomulagið varðandi Tækniskólann, þ.e. sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans. Þar er ákveðin tilraun í gangi, til fimm ára að mig minnir, þar sem atvinnulífið kemur beint að rekstri skólans og á þar af leiðandi að geta haft puttann á púlsinum varðandi það hvernig þarfir atvinnulífsins eru (Forseti hringir.) uppfylltar innan skólans. Hvernig hefur það fyrirkomulag gengið eftir?