139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

sveigjanleg skólaskil.

524. mál
[18:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Enn höldum við áfram með umræður um skólalöggjöfina. Ég vil spyrja ráðherra hvernig hann tryggi lögbundin sveigjanleg skólaskil, þ.e. sveigjanleika á milli skólastiga, ekki síst á milli grunn- og framhaldsskóla, og ég er með fókusinn í þessari spurningu á þau skólastig.

Í Reykjavík eru til að mynda á árinu 2010 um 500 nemendur sem nýta sér fjarnám á framhaldsskólastigi innan grunnskóla borgarinnar. Mér skilst samkvæmt fréttum — það er þá ágætt að hæstv. ráðherra leiðrétti það hér — að ætlunin sé að takmarka sveigjanleikann. Að minnsta kosti hefur eitthvað farið úrskeiðis því að ekki hafa allir tíundu bekkingar sem óskað hafa eftir kúrsum í framhaldsskóla fengið það og skýringin er sú að búið sé að loka á fjárveitingar til framhaldsskóla. Þá er ætlunin, þá stöndum við frammi fyrir því, að rukka nemendur á grunnskólastigi fyrir það að stunda nám á framhaldsskólastigi eða að kostnaðurinn falli einfaldlega á sveitarfélögin.

Ég spyr þá aftur — og alltaf er hægt að tala um að árferði sé erfitt — hvernig hæstv. ráðherra ætlar að réttlæta að með því sé farið gegn lögunum. Eða ætlar hæstv. ráðherra að koma hingað með nýtt frumvarp til að breyta lögum um grunnskóla og framhaldsskóla þar sem sveigjanleikinn verður minnkaður?

Ég vil líka benda á að sú breyting sem varð á innritun framhaldsskólanema, þ.e. innleiðing hverfaskiptingar sem er að mínu mati röng nálgun — ég tel það vera miðstýrða nálgun, mér finnst verið að skerða val nemenda, ekki er gengið út frá því að landið sé eitt framhaldsskólasvæði. En gott og vel, gefum okkur að grunnskólanemandi í Reykjavík taki val í framhaldsskóla sem er ekki í hverfinu. Þá vinnur hverfaskiptingin gegn því að hann geti nýtt sér valfögin sem hann hefur lagt stund á í síðasta bekk grunnskóla. Það getur verið að hverfaskiptingin fari gegn því að hann geti nýtt sér þetta því að ef hann fær ekki inni í þessum skóla á grundvelli hverfaskiptingarinnar falla kúrsarnir um sjálfa sig.

Mér finnst straumurinn vera í þá átt, og vísbendingar vera um það, að takmarka eigi þennan sveigjanleika, að takmarka eigi val grunnskólanemenda. Þá vil ég gjarnan fá að vita: Er það rétt að menn ætli sér að takmarka valið varðandi sveigjanlegu skólaskilin og takmarka val á síðasta ári í grunnskóla? Ég hélt að pólitísk sátt væri um það (Forseti hringir.) að auka sveigjanleg skólaskil í samfélaginu en (Forseti hringir.) með þessum breytingum er að mínu mati, af hálfu menntamálaráðherra, verið að ganga gegn því sem stendur í lögum.