139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

sveigjanleg skólaskil.

524. mál
[19:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Í ljósi fyrirspurnar hv. fyrirspyrjanda, sem snerist kannski fyrst og fremst um sveigjanleg skólaskil á mörkum grunn- og framhaldsskóla, þá liggur fyrir, og var rætt hér í fyrra, að þegar við fórum í niðurskurð á útgjöldum til framhaldsskóla var lögð á það áhersla að verja kjarnastarfsemi framhaldsskólanna í lengstu lög og láta lækkun fjárheimilda koma niður á annarri starfsemi. Nám í dagskóla var þannig sett í forgang, því var hlíft eins og kostur var, framlög til annarra þátta, til að mynda fjarnáms og kvöldskóla, voru lækkuð. Það voru, eins og allar sparnaðaraðgerðir, umdeilanlegar aðgerðir en þetta var haft að leiðarljósi.

Meðal þess sem ákveðið var var að falla frá þessum sérstöku greiðslum til framhaldsskóla vegna náms grunnskólanemenda í fjarnámi í einstökum áföngum framhaldsskóla. Það er því alveg rétt að þær greiðslur voru sparaðar. Framhaldsskólar héldu að sjálfsögðu áfram að bjóða upp á nám fyrir grunnskólanemendur í samstarfi við grunnskóla en fengu ekki til þess sérstakt framlag úr ríkissjóði. Það má því segja að framkvæmdin hafi orðið sú að þar sem góð samskipti hafi verið á milli grunnskóla og framhaldsskóla virðist þetta hafa gengið en misbrestur hefur orðið á því annars staðar.

Ein ástæða þess að við tókum þessa ákvörðun var sú að gerð var rannsókn á því hvernig þessir áfangar nýttust. Það var rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur á skilum milli skólastiga. Þar kom fram að einungis þriðjungur framhaldsskólaáfanga sem grunnskólanemendur í Reykjavík tóku voru metnir þegar í framhaldsskólann var komið. Það hefur ekkert með hverfaskiptingu að gera heldur voru það eingöngu sumir framhaldsskólar sem buðu upp á þessa áfanga en nemendur gátu náttúrlega hafnað í hvaða öðrum framhaldsskóla sem var, þeir voru ekki endilega að sækja um nám í þessum framhaldsskóla. Sú áætlun sem gerði ráð fyrir að u.þ.b. þúsund nemendur mundu ljúka árlega einum til þremur framhaldsskólaáföngum samhliða námi í grunnskóla — sem ég er sammála hv. málshefjanda um að er góð leið m.a. til að ná samþjöppun í skólastarfi og auka sveigjanleika á mörkum skólastiga — kom því ekki vel út, fjármagnið nýttist ekki með nægilega skilvirkum hætti.

Ég hef lagt áherslu á að þessi réttur sem hv. þingmaður er að vísa í verði áfram til staðar. Það þarf hins vegar að skoða það — í ljósi þess að við höfum sparað þessar fjárveitingar núna, ég vonast til að hægt verði að koma þeim aftur á við fyrsta tækifæri — að það skipti máli að grunnskólar og framhaldsskólar hafi þá frest til þess að semja um framkvæmd og fyrirkomulag á réttinum til að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla. Ég sé það fyrir mér að við munum reyna að leggja til slíkt bráðabirgðaákvæði á þann veg að rétturinn verði skilyrtur því að grunn- og framhaldsskólinn hafi náð samkomulagi, en ekki er fyrirhugað að fella þennan rétt niður eins og hv. þingmaður spurði eftir.

Ég veit ekki hversu mörg fleiri orð ég get haft um þetta. Ég get bara nefnt að í þessum niðurskurðaraðgerðum, af því að við höfum verið að ræða þær, voru að sjálfsögðu engar ákvarðanir sérstaklega skemmtilegar, en ákvörðunin var tekin út frá þeim sjónarmiðum sem ég fór yfir. Í þessum efnum held ég að þetta skýri málið nokkuð. Við getum síðan tekið aðra umræðu um sveigjanleg skólaskil milli leik- og grunnskóla sem eru á hendi sveitarfélaganna. Löggjöfin hefur tryggt þann rétt en með framkvæmdina og ákvörðunarvaldið hafa farið foreldrar, skólar og sveitarfélög. Ráðuneytið hefur fylgst með því að þessi réttur sé uppfylltur og hefur ekki orðið vart við misbresti á því.