139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

sveigjanleg skólaskil.

524. mál
[19:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek það fram, og hv. þingmanni er það auðvitað ljóst, að ekki var greitt fyrir öll nemendaígildi í framhaldsskólum á síðasta ári, heldur ekki fyrir nemendur sem eru eldri, þ.e. nemendur sem eru í framhaldsskólum, það var ekki greitt fyrir alla þessa nemendur. Ég get því ekki tekið undir þá túlkun að um sé að ræða lögbrot enda lögðumst við að sjálfsögðu yfir það í ráðuneytinu þegar við skoðuðum málið, að sjálfsögðu gerðum við það.

Við tókum hins vegar ákvörðun um niðurskurð út frá því að verja þurfti kjarnastarfsemi framhaldsskólanna, grunnskólanemendur gætu áfram tekið framhaldsskólaáfanga á meðan á grunnskólanámi stæði, sýndu þeir fullnægjandi færni, en framhaldsskólar fengju ekki sérstakt eyrnamerkt framlag til þess úr ríkissjóði frekar en þeir fengu alla nemendur sína bætta, alla nemendur sem þeir tóku inn og kenndu án þess að fá bætt að fullu. Ég tek fram að þarna erum við fyrst og fremst að horfa á þetta út frá efnahagslegum sjónarmiðum.

Þegar kemur að málefnum sveitarfélaganna höfum við að sjálfsögðu verið í samskiptum við Samband íslenskra sveitarfélaga og óskað upplýsinga frá þeim og reynt að hafa yfirsýn yfir þann niðurskurð sem stendur yfir í mörgum sveitarfélögum, mismunandi útfærður. Eins og kom raunar fram fyrr í dag hefur Reykjavíkurborg sérstaklega óskað eftir umsögn ráðuneytisins um þær aðgerðir sem þar hafa verið boðaðar um sameiningar skóla.