139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Það eru mjög sláandi tölur sem koma hér fram, um 540 stöðugildi, 470 konur en 70 karlar, og segir allt um þennan innihaldslausa frasa um kynjaða fjárlagagerð.

Það vakti líka athygli mína í fyrirspurn til hæstv. ráðherra að í Reykjavík fækkar um 240 stöðugildi en hins vegar fækkar um 470 hjá heilbrigðisstofnunum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, þar sem ég hef grun um að mjög mikil fækkun hafi orðið á Landspítalanum, hvað útskýri þennan mun. Annars vegar er fækkun í Reykjavík um 240 en um 470 hjá heilbrigðisstofnunum, sem er reyndar almennt um allt land að sjálfsögðu. Einnig spyr ég hvort fjölgun hafi orðið hjá öðrum stéttum í Reykjavík, þ.e. hvort niðurskurðurinn hafi eingöngu farið fram á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi vegna þess að þessar tölur eru dálítið sláandi.

Svo er það náttúrlega mjög sláandi að búið sé að fækka um 300 stöðugildi á landsbyggðinni. (Forseti hringir.)