139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Maður gerir sér nú vonir um að mesta niðurskurðarhrinan sé um garð gengin og að við séum að horfa í eitthvað sem ekki taki stórfelldum breytingum úr þessu. Ég minni á að þrátt fyrir allt hefur þessi fækkun stöðugilda að mestu gengið fyrir sig án beinna uppsagna. Starfsmannaveltan hefur að mestu leyti tekið þetta á sig þó að ekki hafi verið komist undan því í einstökum tilvikum, sérstaklega á nokkrum heilbrigðisstofnunum, að segja fólki beinlínis upp.

Það vill einfaldlega verða svo þegar við erum að ræða um stóra geira þar sem hlutfall kvennastarfa er 70–80% að ekki þarf flókna útreikninga til að sjá að hagræðing og fækkun stöðugilda í slíkum rekstri kemur skakkt niður milli kynja. Þess sér mjög stað í þessum tölum og engin ástæða til að fela það, það er bara eins og það er. Það er ekki eins og nokkur maður geri það með ánægju að standa þannig að málum, en við náum hins vegar ekki árangri nema að þora að takast á við einhverjar breytingar. Það breytir heldur ekki þeirri stöðu að atvinnuleysi er umtalsvert meira meðal karla en kvenna, enda hefur störfum karla á almenna vinnumarkaðnum fækkað miklu, miklu meira þannig að atvinnuleysi meðal karla er um 1–1,5% meira en meðal kvenna.

Það er rétt að upp á móti mikilli fækkun starfa í heilbrigðisgeiranum á höfuðborgarsvæðinu kemur lítils háttar fjölgun í háskólum, það er rétt, og ég nefndi það sérstaklega að það er sá hluti þar sem stöðugildum hefur ekki fækkað heldur þvert á móti fremur fjölgað. Einnig er rétt að fækkun starfa á Landspítalanum, sem hefur auðvitað orðið mjög umtalsverð ef við lítum þrjú, fjögur ár aftur í tímann, var að hluta til komin fram eða byrjuð áður en þessar tölur komu.

Að lokum svara ég hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þannig að það er eindreginn vilji minn og ríkisstjórnar að festa í sessi aðferðir mannauðsstjórnunar (Forseti hringir.) og ég fór með minnisblað í ríkisstjórn 14. nóvember þar sem m.a. er lögð rík áhersla á það að aðferðafræði mannauðsstjórnunar verði höfð að leiðarljósi og líka þegar kemur að öllu sem snýr að (Forseti hringir.) starfslokaferli starfsmanna sem eru komnir að því að láta af störfum.