139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að víkja að allt öðrum og óskyldum hlutum, en brýnum þó er varða okkur öll. Það eru náttúruhamfarirnar sem hafa orðið í Japan. Eins og alþjóð veit reið þar af einn stærsti jarðskjálfti sem sögur fara af, 9 á Richter, og í kjölfarið kom flóðbylgja, tsunami upp á japönsku, sem olli gríðarlegu tjóni í norðausturhluta landsins. Nú hefur hálf milljón Japana þurft að flýja heimili sín og þúsunda er enn saknað. Til að bæta gráu ofan á svart hafa orðið vetnissprengingar í kjarnorkuveri í Fukushima-héraði en í því veri eru víst fjórir kjarnakljúfar.

Af öllu þessu er ljóst að Japanar glíma nú við margfaldar afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara. Það er ljóst að vandinn er mikill en Japanar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviði björgunarstarfa. Í raun má segja að innviðir samfélagsins þar hafi sannað sig í jarðskjálftanum en flóðbylgjan sem honum fylgdi hafi reynst illvígari eins og fréttamyndirnar hafa sýnt okkur.

Í Japan starfar öflugt rauðakrossfélag, mjög öflugt landsfélag sem hefur um árabil verið stoð og stytta rauðakrosshreyfingarinnar um allan heim. Félagið hefur sent út 63 neyðarsveitir sem eru skipaðar 400 heilbrigðisstarfsmönnum þannig að það er ljóst að þar eru menn við öllu búnir. Það hefur ekki borist formleg beiðni um framlög en Rauði kross Íslands hefur brugðist við og hafið söfnun hér á landi. Augu okkar beinast í dag að kjarnorkuverinu í Fukushima. Þar hafa sprengingarnar valdið geislamengun eða geislavirkni. Staðbundin er hún sem betur fer, en hún getur auðvitað verið mjög alvarleg fyrir fólkið þar og beinir sjónum okkar að gildi kjarnorku sem orkugjafa til raforkuframleiðslu í heiminum.

Ég kem því aðeins (Forseti hringir.) hér upp til að brýna þingheim og ríkisstjórn til að sýna Japönum samstöðu í þessum miklu erfiðleikum. Við Íslendingar eigum margt sameiginlegt með Japönum og og ég tel brýnt (Forseti hringir.) að við sýnum það bæði í orði og verki.