139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sit í allsherjarnefnd og er hér með spurningar og hugleiðingar til formanns nefndarinnar, Róberts Marshalls. Ég hef þungar áhyggjur af lagasetningunni á Alþingi. Sem dæmi má nefna að nú á eftir ætlum við að ræða breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Á síðasta aukafundi allsherjarnefndar í gær var ekki orðið ljóst hvort það mundi standast flýtimeðferð fyrir dómstólum að kæra úrslit ógildrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst til héraðsdóms og síðan til Hæstaréttar og þannig er málið komið inn í þingið, í þessari réttaróvissu. Hér á eftir ætlum við einnig að ræða skipun stjórnlagaráðs sem er mjög umdeilt mál og hafa margir lögspekingar kallað það hreina stjórnarskrársniðgöngu.

Það er ófært að við þingmenn getum ekki spurt okkar færustu sérfræðinga ýmissa lögspurninga hér við undirbúning lagasetningar. Ég hef lagt mín lóð á vogarskálarnar svo það geti orðið því að ég hef ásamt flestum þingmönnum Framsóknarflokksins og öllum þingmönnum Hreyfingarinnar lagt fram frumvarp um stofnun lagaskrifstofu Alþingis, lagaskrifstofu þar sem ráðnir væru lagaprófessorar til Alþingis sem hefðu það hlutverk að lesa yfir frumvörp sem kæmu til þingsins, meta hvort þau stæðust stjórnarskrá og almenna lagasetningu og hvort það væri almennt möguleiki að svara þeirri spurningu hvort frumvarp hverju sinni, yrði það að lögum, stæðist fyrir dómstólum.

Ég spyr því formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall: Hvers vegna er frumvarpið um lagaskrifstofu Alþingis fast í allsherjarnefnd? Oft var þörf en nú er nauðsyn að gera gangskör í því að vanda hér lagasetningu. Hvað líður málinu og má ég vonast (Forseti hringir.) eftir því að þetta mál komi fljótlega inn í þingið? Ég spyr um það nánast á hverjum einasta fundi allsherjarnefndar og fæ engin svör.