139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það gerist ekki á hverjum degi að við hv. þm. Helgi Hjörvar verðum sammála en það erum við þegar kemur að hugmyndum sem sprottið hafa upp á síðustu dögum um svokallaða ofurskatta á laun. Ég tek undir það með hv. þingmanni að hugmyndir um ofurskatta eru óskynsamlegar, slíkir skattar eru skaðlegir og skila engu öðru en meiri óánægju í samfélaginu og landflótta, þeir hafa letjandi áhrif á getu fólks og vilja til þess að auka tekjur sínar og þeir auka á skattsvik. Þess vegna er það rétt hjá hv. þingmanni að þegar kemur að skattheimtu er allt best í hófi.

Ég tek undir það að reiði fólks út í launakjör, ekki síst hjá þeim sem starfa hjá skilanefndum þar sem einhvers konar sjálftaka virðist viðgangast, er skiljanleg en sú reiði má ekki leiða til þess að stjórnmálamenn fari að líta á fólk í landinu sem eign ríkisins sem hægt sé að koma fram við hvernig sem menn vilja. Hugmyndir um 80% ofurskatt bera þess merki að þannig séu a.m.k. einhverjir stjórnmálamenn farnir að hugsa.

Það er auðvitað alveg rétt að 1.200–1.300 þús. króna laun á mánuði eru há laun en hugmyndir um ofurskatta ná ekki bara til skilanefndarfólks og bankastjóra, heldur líka til sjómanna, lækna, verkfræðinga, flugstjóra — og einstaka fjölmiðlamanna. (LMós: … vörð um hátekjuhópana.) Nei, við skulum ekki standa vörð um hátekjuhópana en við skulum hins vegar ekki (Forseti hringir.) segja við börnin okkar og ungt fólk: Ekki mennta ykkur og alls ekki í þeim greinum þar sem þið eigið von á háum og góðum launum vegna þess að (Forseti hringir.) þá lendið þið í skattpíningu.