139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við upphaf þessa dagskrárliðar komust hér til tals uppsagnir heilbrigðisstarfsmanna, bæði á Landspítalanum og eins úti um land, og var tilefnið kynjuð fjárlagagerð, hvernig hún gæti farið saman við það að niðurskurður á heilbrigðisþjónustunni bitnaði aðallega á konum.

Ástæðan er einföld. Í heilbrigðisþjónustunni, sama hvort það er á Landspítalanum eða úti um land, bera konur uppi þjónustuna, alveg frá frumþjónustunni og að sérfræðingunum en þá fer kynjahlutfallið að verða blandað og til stjórnenda þar sem karlarnir yfirtaka það frekar. Þannig er óhjákvæmilegt að breytingar og niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni bitni á konum. Þetta er augljóst.

Þegar við stöndum frammi fyrir eins miklu hruni og við höfum gert og það þarf að draga saman í opinberri þjónustu er ekki hægt að líta fram hjá einni þjónustu algjörlega. Það var reynt að gera það eins mikið og hægt var, en til að byrja með kom niðurskurðurinn niður á Landspítalanum sem tók á sig mesta höggið og auðvitað eru það konur sem verða fyrir þeim niðurskurði. Síðan á þessu ári er niðurskurðurinn orðinn úti um land og þar eru það konur.

Þetta er mjög sárt og tekur miklu meira í þegar við horfum á jafnvel færri störf í hverju byggðarlagi sem eru lögð niður vegna þess að það er ekki aðgengileg önnur vinna fyrir konur á flestum stöðum. Varðandi kynjaða fjárlagagerð þurfum við ekki síður að horfa til þess þegar verið er að styðja og styrkja við ný fyrirtæki eða nýja opinbera þjónustu að þar sé aðgengi kynja jafnt, að það sé horft til þess að launajöfnuður sé meiri en hann er í dag þannig að karlar laðist líka inn í þau störf, (Forseti hringir.) umönnunarstörfin, sem verða þá vonandi í framtíðinni skipuð bæði körlum og konum.