139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir allt sem hér hefur verið sagt um ástandið í Japan, en ég vil líka nota tækifærið og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir fumlaus og ábyrg viðbrögð í þessu máli, sérstaklega gagnvart Íslendingum sem eru staddir í Japan. Það hefur mér þótt til fyrirmyndar.

En ég kem hér til að blanda mér aðeins inn í umræðuna um skattamál, kröfuna um ofurskatta á ofurlaun sem er auðvitað skiljanleg umræða sem nú er upp sprottin af tilefni sem við öll þekkjum. Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að við eigum að veigra okkur við þessari umræðu, þvert á móti held ég að við séum alls ekki að eyða tíma okkar til einskis með því að taka afstöðu til hugtaka eins og jafnlaunastefnu, stöðugleika og skattstefnu. Allt er þetta liður í því að taka afstöðu til þeirrar þróunar sem við sjáum núna að á sér stað, en ég vil hins vegar blanda mér í þessa umræðu vegna þess að ég er ein af þeim sem tóku undir kröfur um ofurskatta á ofurlaun þegar fyrstu fregnir bárust af ofurlaunum í bankakerfinu. Ég tel að ef við förum út í það að bæta við hálaunaþrepum vegna þess að skattkerfið er auðvitað tekjujöfnunartæki auk þess sem það er tekjuöflunartæki þurfum við að skoða þrepaskiptingu skattkerfisins í heild sinni og hugsanlega þá að leiðrétta það frá báðum endum.

118.000 kr. skattleysismörk eru trúlega allt of lág mörk og það er líka spurning hvort ekki sé ástæða til að lengja bilið milli neðstu skattþrepa. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn í þinginu um að skoðuð verði áhrif þess á ríkissjóð ef skattleysismörkin verða hækkuð, (Forseti hringir.) bilið lengt á milli tekjuskattsþrepanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir áður en við tökum frekari skref í þessari umræðu.