139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þá yfirlýsingu sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom með áðan um að við Íslendingar eigum að sýna samstöðu og samhug með vinaþjóð okkar í Japan sem er að ganga í gegnum alveg gríðarlegar hörmungar núna vegna náttúruhamfara. Fleiri fulltrúar annarra þingflokka hafa tekið hér undir. Ég tel mjög brýnt að við sendum góðar kveðjur til vinaþjóðar okkar, til Japana, og gerum það sem í okkar valdi stendur til að sýna stuðning og samhug. Við getum gert það á margvíslegan hátt og ég heyri að þingmenn vilja sameinast um það.

Auðvitað hafa þessar náttúruhamfarir gríðarlega mikil áhrif í Japan en áhrifin verða víða um heim. Núna fer fram mjög mikil umræða á Norðurlöndunum um kjarnorku, víða á Norðurlöndum var rætt um að koma upp nýjum kjarnorkuverum og Bretar gerðu það líka. Við heyrum á umræðunni að það er komið hik á þær þjóðir sem hafa ætlað að auka kjarnorkuna sína, það verður örugglega mikil umræða um stóraukna endurnýjanlega orku. Ég býst við að olíuverð muni hækka. Þetta mun hafa áhrif á Íslandi líka, olíuverð er orðið mjög hátt og ef það hækkar núna, sem allt bendir til, verða hér miklar breytingar á samgöngumunstri. Þessar sorglegu hamfarir sem við erum að horfa upp á í sjónvarpi og á netinu, þessar myndir sem eru að koma frá Japan, munu hafa áhrif mjög víða, m.a. hér á Íslandi.

Ég býst við að samgöngumunstur okkar muni breytast, m.a. af þessum orsökum. Sumt af því er jákvætt en í heildina er auðvitað gríðarlega neikvætt fyrir Japani að lenda í þessu. Við verðum að sýna, og ég held að Íslendingar finni sérstaklega til með þeim af því að við lifum líka í landi þar sem eru oft og tíðum stórir jarðskjálftar og eldgos og náttúruhamfarir af þessu tagi, sérstaklega auðvitað á fyrri tíð þegar hér dundu yfir (Forseti hringir.) miklar náttúruhamfarir.