139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ekki kristaltærara en svo að hv. þingmaður treysti sér ekki til að fara yfir þann feril sem fer í gang ef framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu verður kærð. Við höfum afar gott fordæmi fyrir því hvernig þessu ákvæði var beitt í kosningunum til stjórnlagaþings. Það virkaði afar vel þar sem Hæstiréttur var lokadómarinn í því máli hvort kosningarnar ættu að halda gildi sínu eða ekki. Hér er verið að taka þá leið út og ekki nóg með það, heldur er líka lagt til í þessu nefndaráliti að gallar á kosningunni leiði ekki til ógildingar kosningar nema ætla megi að þau hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Hér er verið að setja mjög matskennt ákvæði inn í lögin. Í þessu nefndaráliti er lagt til svo matskennt ákvæði sem er sótt í lög um kosningar til sveitarstjórna.

Ég er ekki alveg viss um að hv. formaður allsherjarnefndar hafi heildarsýn yfir þá lagasetningu sem hér er lögð til vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðsla er langtum alvarlegra mál en kosningar til sveitarstjórna. Kosningar til sveitarstjórna hafa verið ógiltar og þá var einfaldlega úrskurðað að þær kosningar færu fram upp á nýtt.

Ég vil minna á það líka að í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu sem sett voru í fyrra var í upphafi lagt til að Alþingi sjálft mundi úrskurða um ógildi kosninga sem byggðu á þessum lögum en þá benti ég m.a. á að það væri ófært að Alþingi mundi efna til kosninganna og úrskurða þær jafnframt ógildar ef svo vildi verkast. Út af því var hæstaréttarleiðin valin, út af því var lagasetningin þá byggð á lögum um kjör forseta Íslands og þess vegna er mjög eðlilegt (Forseti hringir.) að það ákvæði haldist í lögunum en landskjörstjórn verði ekki einni falið að bera þá þungu ábyrgð sem felst í því að meta hvort kosningar séu ógildar (Forseti hringir.) eða ekki í lýðræðisríki.