139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:18]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst tveimur skyldum að gegna þegar kemur að atvinnumálum, í fyrsta lagi að koma vinnufúsum höndum til verka og í öðru lagi að auka verðmætasköpun og hagvöxt í samfélaginu.

Varðandi fyrri þáttinn er brýnast að tengja saman atvinnustefnu og menntastefnu, koma sérstaklega ungu atvinnulausu fólki til mennta með sérstaka áherslu á starfsmenntun en þar er eftirspurnin í atvinnulífinu hvað mest um þessar mundir. Við þurfum sömuleiðis að auka verðmætasköpun til að reisa við efnahagslífið og þar er aukin fjárfesting lykilatriði.

Hingað til hefur nær öll erlend fjárfesting verið í áliðnaðinum, en það er ljóst að ekki verður sátt um það meðal þjóðarinnar að álframleiðsla verði til framtíðar höfuðatvinnugrein Íslendinga. Til þess er fórnarkostnaður náttúrugæða einfaldlega of mikill og orkuframboðið of takmarkað. Sem betur fer höfum við úr fleiri kostum að velja og við höfum einstakt tækifæri til að marka okkur sérstöðu sem grænt hagkerfi í fremstu röð. Þar er byggt á þeirri sýn að við setjum í forgang annars vegar þá atvinnustarfsemi sem nýtir orkuauðlindirnar með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti og hins vegar atvinnusköpun sem ekki er háð nýtingu náttúruauðlinda.

Það er gleðiefni að áhugi erlendra aðila á fjárfestingum hér á landi er fyrir hendi. Þegar hefur verið undirritaður samningur um uppbyggingu kísilvers í Helguvík sem mun skapa um 100 framtíðarstörf og allt að 200 störf á byggingartíma. Þar fyrir utan eru tvö umhverfisvæn verkefni sem tengjast afleiddum iðnaði þar sem hægt er að nota hráefni kísilvera, svokölluð kísilhreinsiver, á tveimur stöðum á landinu. Þar er um að ræða verkefni sem skapa mörg störf á hverja orkueiningu, samtals 500 framtíðarstörf fyrir 150 megavött af orku og 600–800 störf á byggingartíma.

Ég vek sérstaka athygli á því að hér er um að ræða umhverfisvæn verkefni sem ekki fela í sér losun gróðurhúsalofttegunda sem neinu nemur. Það sem helst stendur þessum verkefnum fyrir þrifum er skortur á orku. Það er því mikilvægt að ríkið móti skýra eigandastefnu þess efnis að opinber orkufyrirtæki leggi sig fram um að útvega orku í þau verkefni þar sem áhugi fjárfesta liggur þegar fyrir. Undirbúningur er kominn vel á veg og atvinnusköpun er vænleg einmitt nú þegar við þurfum á innspýtingu að halda.