139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á að margir lagabálkar væru um kosningar. Mig langar til að spyrja hann, vegna þess að ég hygg að hann hafi ákveðna þekkingu á því, hvort í þeim lagabálkum sé aðgangur kjósenda að upplýsingum tryggður.

Þegar menn taka þátt í kosningu kjósa þeir um eitthvað, þeir kjósa einstaklinga, þeir kjósa um málefni eða eitthvað slíkt, og þá er mjög mikilvægt að kjósandinn þekki málefnalega þau atriði sem á að kjósa um og að lagðar séu fram hlutlausar skoðanir á því eða mönnum með mismunandi skoðanir veittur aðgangur að málinu.

Margar kosningar fara í gang að tilhlutan ríkisvaldsins, eins og sú atkvæðagreiðsla sem verður t.d. núna um Icesave. Þá er mikil hætta á því að ríkisvaldið noti í krafti síns mikla styrkleika afl sitt til að koma eingöngu já-upplýsingum til kjósenda.

Ég hef hlustað á RÚV, Ríkisútvarpið, sem er stór miðill. Alltaf þegar það fjallar um já-ið er farið í gegnum ýmsa kosti og galla. Sjaldan er talað um nei-ið og ef talað er um nei-ið er það með skelfingu í röddinni og sagt að við getum tapað málinu og þá gerist eitthvað voðalegt. En það er sjaldan minnst á að töluverðar og jafnvel stórar líkur séu á því að við vinnum málið. Hvað gerist þá? Ég man ekki til að það hafi verið nefnt í þeirri ágætu útvarps- og sjónvarpsstöð.

Ég vil benda á að ÖSE-stofnunin, sem sér um kosningaeftirlit um alla Evrópu, er með sérstaka útsendara þrem eða fjórum vikum fyrir kosningar til þess að kanna hvort öll sjónarmið sem kosið er um komist til skila í öllum fjölmiðlum, sérstaklega ríkisfjölmiðlum.