139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að áhyggjur hv. þm. Péturs H. Blöndals séu alls ekki ástæðulausar. Ég get alveg tekið undir þær í sambandi við fréttaflutning ýmissa fjölmiðla og þar á meðal Ríkisútvarpsins sem við hljótum að gera meiri kröfur til en annarra fjölmiðla vegna lögbundins hlutverks þess. Ég hef áhyggjur af því hvernig fréttaflutningur hefur verið á þeim bæ í þessu máli og vonandi lagast það þegar á líður, en það hefur ekki verið jafnvægi í fréttaflutningi þeirra fram að þessu.

Það svarar hins vegar ekki spurningu hv. þingmanns sem sneri að hvernig þessum málum væri háttað í lögum. Ég held að ég geti leyft mér að segja að frekar sjaldgæft sé að mælt sé fyrir um það í lögum með hvaða hætti valkostir í kosningum séu kynntir fyrir kjósendum. Þó er vísir að því í þjóðaratkvæðagreiðslulögunum þar sem ákveðið ákvæði, reyndar óljóst, er um að stuðla beri að kynningu á málefni sem er borið undir atkvæði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan þegar kemur að skyldubundinni þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar, eins og Icesave-kosningin verður núna 9. apríl, er látið við það sitja í lagatextanum að segja að innanríkisráðherra eigi að senda frumvarpið inn á öll heimili og tengil inn á heimasíðu Alþingis. Við höfum rætt það í allsherjarnefnd að þarna sé ákveðið ósamræmi á milli annars vegar fyrirkomulagsins þegar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er að ræða og hins vegar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og að þetta misræmi sé óeðlilegt.