139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umfjöllun hans um málið. Það sem ég hefði helst viljað nefna og taka til umræðu í tengslum við þetta þingmál um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er einmitt það sem hann fjallaði sérstaklega um, þ.e. kynningarmálin.

Mig langar til að vekja athygli á því að í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar á bls. 3 í kynningu segir m.a., með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að nokkurs misræmis gætir í lögunum varðandi kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar Alþingi ályktar og svo þess þegar þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingar á þessari grein en telur nauðsynlegt að málið verði tekið upp og skoðað. Meiri hlutinn telur engu síður að þetta misræmi geti ekki komið í veg fyrir að á vegum ráðuneytisins fari fram fagleg kynning á því málefni sem kosið er um. “

Mér leikur þess vegna forvitni á að vita hvort þingmaðurinn skilji þetta ekki með sama hætti og ég, að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laganna um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna standi ekkert í lögunum í vegi fyrir því að innanríkisráðuneytið sem ber ábyrgð á þessum málum, láti útbúa kynningarefni, ásamt því að láta í té lögin sem því bera lagaskylda til að senda öllum kosningarbærum mönnum, þar sem fram koma helstu sjónarmið, málefnið í hnotskurn ef svo má segja, þannig að almenningur geti kynnt sér það á aðgengilegan hátt. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn sé ekki sammála þeim skilningi mínum, m.a. í ljósi þess sem segir í nefndarálitinu, að það sé alveg ljóst að innanríkisráðuneytinu sé heimilt að gera það, umfram það sem lágmarksskilmálar 6. gr. laganna kveða á um.