139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að umræðan sé komin á ákveðið stig sem er mjög nauðsynlegt að hún komist á, þ.e. að menn ræði af fullri alvöru um hvernig kynna eigi málefni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Viðhorf mitt hefur svolítið verið í þá áttina, eins og varðandi 26. gr. stjórnarskrárinnar, að þegar búið er að taka málið frá Alþingi og vísa því til þjóðarinnar eigi stjórnmálamennirnir sjálfir kannski að halda sig til hlés og ekki síst framkvæmdarvaldið sem í þessu tilfelli lagði fram frumvarpið og hefur barist fyrir því. En vissulega er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að menn fjalli um málið og svari þeim spurningum sem beint er til þeirra.

Hvað varðar útbúning á kynningarefni er að sjálfsögðu hægt að draga fram ítarlega og greinargóða úttekt á helstu efnisatriðum málsins jafnframt því, ef menn kjósa svo, að birta í slíku kynningarefni mismunandi sjónarmið. Ég tel alls ekkert útilokað að það verði gert líka og mér finnst í rauninni eðlilegt að menn birti líka sjónarmið með málinu og á móti málinu í slíku kynningarefni, einfaldlega til þess að upplýsa almenning betur um hvaða álit þeir sem mest hafa fjallað um málið hafi á því og hvers vegna þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu sinni.

Mér virðast kynningarmálin um þjóðaratkvæðagreiðslur vera komin í betri og réttari farveg en þau hafa oft verið og ég fagna því. Ég hlakka sjálfur til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og þess dags þegar ég fer og greiði atkvæði og sé svo útkomuna úr því.