139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki skilið breytingartillöguna í 3. tölulið, þ.e. breytinguna við 13. gr. laganna sem er þá 5. gr. frumvarpsins, þannig að búið sé að koma í veg fyrir það að Hæstiréttur Íslands hafi síðasta orðið um ágreiningsefni sem upp koma um framkvæmd kosninganna, enda vil ég ekki að það sé þannig og mundi líklega ekki samþykkja slíkt fyrirkomulag. Í nefndaráliti meiri hlutans segir á bls. 2:

„Dómstólar eigi svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reyndi.“

Þannig hefur það verið í öðrum kosningum sem hér hafa farið fram. Ég er ekki með lagaákvæðin fyrir framan mig um framkvæmdina í mismunandi kosningum, hvort sem það eru alþingis-, forseta- eða sveitarstjórnarkosningar, en ég geng út frá því að við sem að þessu nefndaráliti stöndum séum sammála um það að komi upp ágreiningur eins og ég hef hér lýst hafi Hæstiréttur Íslands alltaf síðasta orðið um réttmæti þeirra athugasemda sem fram eru færðar vilji menn ganga þann veg alla leið, þ.e. að fara fyrst með ágreining til landskjörstjórnar, síðan þá til héraðsdóms og eftir atvikum til Hæstaréttar Íslands.

Ef þetta er einhver misskilningur, mismunandi skilningur lagður í þessa reglu, finnst mér sjálfsagt að það atriði verði sérstaklega rætt milli 2. og 3. umr. um málið í hv. allsherjarnefnd eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur óskað eftir að gert verði.