139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[17:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi sögunnar og þess sem gerst hefur get ég tekið undir það með hv. þingmanni að það er ófært að ákvæði laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna eða annarra kosninga sem boðað er til í landinu séu óskýr. Ef einhver ágreiningur er uppi meðal hv. þingmanna, ég tala nú ekki um þeirra sem eiga sæti í nefndinni sem fjallar um þetta mál, er einboðið að nefndin setjist yfir textann eins og hann er í dag og tryggi það að skilningur allra á lagatextanum varðandi þessi kæruatriði sé sá sami, hvað sem mönnum hins vegar finnst efnislega um þá reglu sem þar kemur fram.

Við munum fá tækifæri til að gera það úr því að hv. þingmaður óskaði eftir því að málið yrði tekið til umfjöllunar í allsherjarnefnd milli 2. og 3. umr. Ég held að það veiti ekkert af frekari yfirferð yfir texta frumvarpsins. Það verður ekki annað sagt en að málið hafi verið klárað í talsverðum flýti út úr nefndinni og vel kann að vera að nefndarmönnum hafi yfirsést einhver atriði sem leiða til þess að texti frumvarpsins sé óskýr. Þá er ekkert annað að gera en að einhenda sér í það verkefni að fara yfir það sem ágreiningur er um.

Hið sama má segja um 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, um að gallar á kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Ég hygg að þetta ákvæði sé sambærilegt ákvæði í (Forseti hringir.) fyrri kosningalögum. Þetta er auðvitað bara atriði sem við förum vandlega yfir í nefndinni.