139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er verið að prenta upp breytingartillögu á mínum vegum þar sem lagt er til að Hæstiréttur komi aftur sem úrskurðaraðili í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Formaður allsherjarnefndar las upp úr nefndaráliti því sem dreift er í dag og farið er eftir, að almenna reglan sé sú að almennir dómstólar muni taka við kæru. Það kemur fram í nefndaráliti. Ég spyr formann allsherjarnefndar: Hvað á hann við þegar hann talar um að almenna reglan sé sú að dómstólar geri það sem kveðið er á um í nefndaráliti þar sem einungis var kveðið á um að sú regla kæmi inn þegar Icesave-lög nr. 2 voru sett í þjóðaratkvæðagreiðslu með sérlögum? Ekki hefur reynt á þá reglu neins staðar þannig að ekki er hægt að tala um að það sé almenn regla. Þar að auki er réttarspurningunni algerlega ósvarað af meiri hluta allsherjarnefndar, hvað héraðsdómstólarnir hafa yfir höfuð að gera í kosningakærum.

Almenna reglan getur ekki verið sú að dómstólarnir komi að þessum málum vegna þess að í kosningum til sveitarstjórna fer kæran til sýslumanns og síðar til innanríkisráðuneytis, frá forseta Alþingis fer kæran til Hæstaréttar. Í alþingiskosningum úrskurðar Alþingi sjálft um gildi eða ógildi kosninganna og svo má lengi telja. Stjórnlagaþingskosningarnar fóru beint til Hæstaréttar, sem betur fer, og í öllum þeim lögum sem ég hef talið upp er sérstakt kæruákvæði í ákveðnum kafla þessara laga. Kæruleiðirnar eru hafðar í lögunum sjálfum, ekki sem skilningur meiri hluta allsherjarnefndar á þeim tíma sem lögin eru samþykkt, eins og mun gerast ef þingheimur samþykkir ekki breytingartillögu mína um að setja Hæstarétt aftur inn í lagatextann.