139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ljúka þessu máli og það er brýnt að því verði lokið í dag vegna þess að á morgun hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla um Icesave-samninginn. Það er að mínu mati nauðsynlegt að hafa lokið málinu áður en atkvæðagreiðslan hefst.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að auðvitað er misræmi í hinum ýmsu lögum sem við höfum um kosningar í landinu enda gerum við grein fyrir því í nefndaráliti okkar að við teljum þörf á því að fram fari heildarendurskoðun á kosningalöggjöfinni, m.a. svo unnt sé að bæta verklagið í heild. Það má því að mörgu leyti taka undir þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur í þessum efnum en við erum búin að fullvissa okkur, meiri hlutinn í nefndinni, um að við göngum þannig frá hnútum í málinu að tryggt sé að kosningin geti farið fram með eðlilegum hætti nákvæmlega eins og við gerðum fyrir ári og er engin ástæða til að ætla að nokkuð fari úrskeiðis í þeim efnum.